Í tvö og hálft ár hafa Orri Jónsson og Davíð Hörgdal Stefánsson rannsakað 30 ára listferil tónskáldsins Jóhanns Jóhannssonar. Afraksturinn verður heimildarmynd í fullri lengd, ásamt veglegu bókverki sem nú er í forsölu til 7. júlí á Karolina Fund.
Rannsóknarstarf um kæran vin
„Kira Kira, tónlistarkona og vinkona mín til margra ára, læddi að mér hugmynd að heimildarmynd um Jóhann í ársbyrjun 2019, segir Orri Jónsson, tónlistarmaður og ljósmyndari. Við Kira vorum bæði vinir Jóhanns og urðum því fyrir miklu áfalli þegar hann lést, allt of ungur og með tónlistarferil í fullum blóma. Ég var hikandi í fyrstu að takast á við verkefni eins og þetta og benti henni á að tala við Davíð, sem hefur fylgst náið með Jóhanni um árabil og þekkti feril hans að mörgu leyti betur en ég.
Þau Kira hittust og sannfærðu mig í framhaldinu um að gera þetta með þeim. Eftir eins árs rannsóknarvinnu ákvað Kira þó að draga sig út úr verkefninu vegna þess að henni fannst hún standa of nærri viðfangsefninu, það tekur tilfinningalega á að fara á djúpið í svona rannsóknarvinnu, sérstaklega um vin sinn. Hún sagði sig því frá þessu og skildi eftir í okkar höndum en er þó í kallfæri ef við þurfum álit á hinu og þessu í ferlinu,“ segir Orri.
Að vita ekkert hvað maður er að gera … en gera það samt
„Við Davíð höfum þekkst lengi og mikið spjallað um eðli listar og sköpunar, ekki síst um máttinn sem felst í óttalausri tilraunamennsku, s.s. því að gera meira en maður í rauninni kann. Tilvitnun í Kim Gordon hefur verið límd upp á vinnustofunni okkar síðustu tvö ár: „First records succeed now and again because you don't quite know what you're doing but you go ahead and do it anyway.“ Jóhann vann oft á þennan hátt; hann hafði ákveðinn grunn í tónlist úr æsku, smá básúna og píanó, en frá unglingsárum notaði hann í raun hvert verkefni til að kenna sér eitthvað nýtt á þennan tilraunakennda máta,“ heldur Orri áfram.
Davíð bætir við: „Og þetta gerði hann allt til enda, t.d. að hóa saman nokkrum tónlistarvinum sínum í yfirgefna vöruskemmu til að taka upp hljóðmynd fyrir rándýrar stórmyndir. Margir sjá fyrir sér að hjá virtum og frægum listamönnum sé sköpunarferlið skýrt og straumlínulagað – en það sem gerir Jóhann að mínu mati einstakan er að hann treysti alltaf mjög mikið á innsæið. Margir vinir og samstarfsfólk Jóhanns hafa lýst því að áður en hann byrjaði að semja tónlist fyrir ákveðin verk hafi hann lagst í rannsóknarvinnu, lesið alls kyns texta og ígrundað þema verksins á dýptina. Þannig lagði hann af stað inn í ný verkefni hlaðinn af hugsunum, hugmyndum og tilfinningum um hvernig best væri að nálgast hlutina. Restin af ferlinu fólst síðan í eins konar óreiðukenndri fjársjóðsleit með vinum – að þreifa sig áfram þar til rétti hljóðheimurinn fannst.
Svo er mikill styrkur fólginn í þessu samstarfi okkar Orra, sem höfum verið vinir lengi. Verkefnið er mjög persónulegt og drifið áfram af ást í garð Jóhanns og virðingu fyrir því hvernig hann vann – og hvað tónlistin hans er óvenju hlaðin af tilfinningum. Ég kom inn í þetta sem „sérfræðingur“ í tónlist Jóhanns, enda hafði ég fylgst grannt með ferli hans frá árinu 2006. Orri hafði ekki skoðað feril hans jafn markvisst og ég en á móti kemur að þeir voru vinir frá unglingsárunum og báðir algerir nördar í gömlum hljóðgræjum og analog-hljómi. Að sjálfsögðu hefðu aðilar um allan heim getað gert flotta heimildarmynd og bók um Jóhann, en það hefði alltaf verið meira „utan frá“ og miklu almennara eðlis. Orri og Kira Kira hafa lifað og hrærst í íslenska tónlistarsamfélaginu undanfarna áratugi og innsýn þeirra inn í það hvernig manneskja Jóhann var skiptir höfuðmáli og gerir nálgun okkar á þetta viðfangsefni einstaka,“ segir Davíð.
Ekki svo alvarlega tónskáldið
Orri bætir því við að eitt af því sem þá langar að gera sé að stinga á þá mýtu að Jóhann hafi verið þungbrýndur og alvarlegur listamaður sem sat einn við píanóið í tónskálda-stellingum og skrifaði upp nótur. „Þetta er ímynd sem hann átti örugglega þátt í að móta sjálfur, sérstaklega eftir að ferillinn fór á flug og hann vildi láta taka sig mjög alvarlega, en þeir sem þekktu hann vita betur. Hann var oft mjög galsakenndur og skemmtilegur með djúpan og smitandi hlátur, gríðarlega forvitinn um lífið, heimspeki, hljóðheim og vísindi, fordómalaus, opinn og leitandi. Eins og flestar manneskjur var hann líka mótsagnakenndur, hann kom sér oft í aðstæður þar sem hann hafði litla stjórn á í sköpunarferlinu, og leitaði gjarnan fanga í þeirri ringulreið, en hann var líka mikið kontról-frík og fullkomnunarsinni. Stjórnsemin kom honum oft í koll þegar hann vann í aðstæðum sem kröfðust meira jafningjasamstarfs, eins og innan hljómsveita.“
„Það er einmitt þessi nálgun Jóhanns á sköpunarferlið, sem við fyrstu sýn kann að hljóma þversagnakennd, sem okkur þykir heillandi og langar að kryfja betur,“ segir Davíð. „Jóhann var gríðarlega menntaður listamaður en hafði engar háskólagráður. Við höfum talað við mikinn fjölda samstarfsfólks og vina hans út um allan heim og þetta fólk talar ítrekað um hvað hann hafi verið vel að sér í öllum fjáranum; sögu, vísindum, bókmenntum, kvikmyndum, heimspeki ... en vitneskja hans kom ekki frá skólastofnunum, heldur í gegnum óslökkvandi forvitni og fordómalausa leit sem var algerlega sjálfdrifin. Okkur langar að kryfja þessa nálgun hans á nám og sköpunarferlið því þetta er í raun mjög hvetjandi og falleg saga, þrátt fyrir að vera á tíðum erfið.“
Hollywood þefaði Jóhann uppi
Orri segir að það hafi verið mjög sérstakt hvernig Jóhann komst í þá stöðu að verða eitt eftirsóttasta kvikmyndatónskáld Hollywood. „Hann kom algerlega bakdyramegin inn í þetta, hafði aldrei unnið sem lærlingur fyrir önnur tónskáld eins og venjan er, heldur fékk verkefni út frá þeirri tónlist sem hann hafði gert sjálfur, ekki síst Englabörn, IBM 1401, Fordlandia og svo framvegis. Svo var hann nógu þroskaður – og þrjóskur – til að standa fast á sínu og láta Hollywood ekki beygja sig niður í einhverja meðalmennsku.“
„Saga hans er því á margan hátt mjög óvenjuleg,“ segir Davíð að lokum, og alls ekki dæmigerð saga um þroskaferil listamanns. „Ferill Jóhanns ætti að veita innblástur öllum manneskjum sem hafa áhuga á sköpunarmættinum því að saga hans er frábært dæmi um það hversu langt er hægt að komast á barnslegri forvitni og leikandi vinnubrögðum. Þarna sameinumst við Orri fullkomlega – í þeirri trú að öflugasta listin verði til þegar leikurinn ræður för.“
Hægt er að styðja við verkefnið hér til 7. júlí.