Soffía Reynisdóttir er 53 ára, dóttir, móðir, systir, frænka. Hún hefur upplifað eitt og annað eins og gengur og gerist í lífinu. Alin upp í sveit og á stóra fjölskyldu sem er samheldin. Hún á eina uppkomna dóttur sem hún hefur alið upp sem einstæð móðir. Hefur unnið ýmis störf í gegn um árin, stundum mörg störf til að eiga fyrir salt í grautinn, stundum sem almennur starfsmaður og stundum sem yfirmaður á vinnustað. Allt eftir aðstæðum hverju sinni.
Hún er lærður nuddari, margmiðlunarhönnuður, verslunarstjóri, skúringakona, kokkur. Hún er harðdugleg og fylgin sér og klárar það sem hún tekur sér fyrir hendur nema kannski stöku lopapeysu sem liggur hálfprjónuð í stofunni. Nú stendur hún fyrir söfnun á Karolina Fund til að hægt sé að koma vefsíðu í loftið þar sem hægt verður að styrkja einstaklinga og verkefni í Úkraínu. Styrkurinn á að fara beint til fyrirtækja í Úkraínu og styrkþegar sækja það sem þau þurfa til fyrirtækja í sínu nærumhverfi í Úkraínu.
Samtöl í Covid-19 veikindum
Hún segir hugmyndina hafa vaknað í Covid-19 veikingaleyfi. „Það er þannig þegar maður liggur fyrir lasinn, hausinn er nokkuð heill þó skrokkurinn neiti að fara í vinnuna. Ég fór að hanga á netinu og datt inn í að hlusta á fólk spjalla saman. Eftir að hafa gert það í nokkur skipti þá fer maður að setja inn ummæli og spurningar, fær svör og það varð til samtal. Það samtal er orðið þannig að ég fylgist daglega með hvernig þeim gengur og hvað er að gerast.“
Um þetta snúist samtölin sem Soffía á. „Stundum sendi ég þeim mynd af Eskifirði eða segi þeim frá eldgosinu. Þeim finnst það skemmtilegt og hafa áhuga á að vita hvað er að gerast hér til að leiða hugann frá stríðinu. Ég sendi þeim myndir af snúðunum sem ég baka á morgnana í vinnunni og segi góðan daginn. Þeim þykir ekki síst vænt um að vita að fólki er umhugað um þau, hlustar og vill hjálpa. Það er mitt hlutverk, að hlusta og ekki bara gera það sem mér finnst að þurfi heldur láta þau segja mér hvað þau þurfa.“
Vill að vefurinn verði að alþjóðlegu verkefni
Einhvern tíma í miðju samtali um fjölskylduna með börnin, gerði Soffía tilraun til að kaupa skólagögn fyrir þau í vefverslun sem starfar í Úkraínu. „Ég ætlaði að versla, borga og láta þau svo sækja í verslunarmiðstöð í borginni sem þau búa í. Mér tókst ekki að gera þetta því greiðslan fór ekki í gegn en þá datt mér þetta í hug. Við þurfum að geta gert þetta, stutt málefni, einstaklinga eða fjölskyldur með því að eiga þessi viðskipti við fyrirtæki sem starfa í Úkraínu. Ekki bara kaupa skólagögn hér á Íslandi, pakka þeim í kassa og senda með tilheyrandi kostnaði og óvissu um afhendingu. Mikið einfaldara væri að kaupa skólagögnin bara þar og láta þau sækja daginn eftir og styðja þá um leið atvinnustarfsemi í landinu, skattar og virðisauki af viðskiptunum renna til Úkraínu en ekki einhvers annars lands. Þá þarf ég ekki að taka ákvörðun um að senda peninga til ókunnugs fólks sem ég er að kynnast í gegn um netið, því það gerir maður ekki. Annar vinkill á þessari nálgun er svo líka blessuð umræðan um kolefnissporið.“
Henni langar að vefurinn sem hún vill koma á koppinn með söfnuninni á Karolina Fund verði að alþjóðlegu verkefni. „Þetta á ekki bara við um Íslendinga heldur fólk um allan heim sem vill hjálpa en veit ekki alltaf bestu leiðina til að gera það. Það eru margar leiðir til að styrkja og hjálpa. Ótal mörg samtök sem eru að vinna mikið og gott starf en svo eru einstaklingarnir sem að ströggla við hver í sínu horni, sumir af veikum mætti með lítið milli handanna að safna fyrir einhverju fyrir einhvern sem þau þekkja. Ef þessi vefur gæti hjálpað þessu fólki að koma sínu málefni á framfæri, hjálpa þeim að ná til þeirra sem vilja styrkja væri mikill ávinningur af því.“