Jón Grétar Sigríðarson er kvikmyndagerðarmaður sem farið hefur lítið fyrir síðan hann útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands. Hann vinnur að heimildarmynd í fullri lengd og fjallar um Hauk Hilmarsson og safnar fyrir gerð hennar á Karolina Fund.
Haukur var þekktur á Íslandi sem baráttumaður fyrir réttindum hælisleitenda og sem ástríðufullur andstæðingur fasisma. Haukur er talinn hafa fallið í Sýrlandi í febrúar árið 2018 þar sem að hann var að berjast fyrir Kúrda.
Stefnt er á að hefja tökur í júní 2022 og ljúka þeim í ágúst sama ár. Áætlað er að myndin verði tilbúinn í nóvember 2022 en myndin verður eingöngu aðgengileg þeim sem styrktu söfnunina á Karolina Fund fyrstu þrjá mánuðina frá útkomu.
Jón Grétar segir að hugmyndin að verkefninu hafi kviknað þegar hann gerði skólaverkefni hausti 2014. „Ég setti saman lista af fólki sem hafði haft mest áhrif á mig í lífinu án þess að vera tengd mér fjölskylduböndum og var Haukur efstur á þeim lista. Eftir það var ekki aftur snúið og það kom ekkert annað til greina hjá mér en að gera stutta mynd um Hauk. Haukur hafði engan áhuga á því að vera myndaður eða að ég myndi gera einhverskonar stutta mynd um hann í fyrstu en einhvern veginn náði ég að sannfæra hann um að gera þetta með mér. Við tókum þá ákvörðun mjög snemma að reyna að gera eitthvað meira en úr þessum tökum. Hauki fannst það áhugaverð hugmynd að gera mynd sem fylgdi honum eftir og spannaði einhverja áratugi.“
Að sögn Jóns Grétars er helst ástæða þess að hann vill hópfjármagna verkefnið sú að hann er ekki tilbúinn að samþykkja neina ritskoðun þegar að kemur af því að gefa út þetta verk. „Haukur var alltaf gríðarlega umdeildur og margt af því sem mun koma fram í myndinni er umdeilt. Ég hef þegar lagt allt sem ég get undir til þess að gera þessa mynd. Mér þykir gríðarlega vænt um Hauk og myndin mun verða minnisvarði frá mér til Hauks.“