Sjálfakandi bílar virðast lenda í fleiri slysum og árekstrum en hefðbundnir bílar. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem gerð varí Michigan-háskóla um virkni sjálfakandi bíla og öryggi þeirra. Niðurstaðan kann að hljóma þvertöfugt við það sem framleiðendur þessara bíla segja að sé markmiðið. Vandamálið er hins vegar enn það sama: mennskir ökumenn.
Bílar sem ekið er af tölvum eru hlaðnir skynjurum og tækjum til að greina umhverf bílsins, allan hringinn. Tölvan þarf svo að taka mið af þessum upplýsingum í akstri, líkt og mennskur bílstjóri. Svo virðist sem að tölvan geri það betur en manneskjurnar.
Framleiðandur sjálfakandi bíla eru skyldaðir samkvæmt bandarískri löggjöf að taka saman og birta upplýsingar um fjölda slysa, árekstra eða óhappa sem sjálfakandi bílar lenda í. Nú þegar hefur þessum bílum verið ekið meira en milljón mílur (um 1,6 milljón kílómetra) og þykir slysatíðnin vera nokkuð há, eða 11 áreksrar á hverrjar milljón mílur. Í öllum tilfellum var það mennskur ökumaður sem olli slysunum.
Samkvæmt frétt Vox.com um niðurstöður rannsóknarinnar verður hins vegar að líta til nokkurra atriða þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar. Hið fyrsta er að sjálfakandi bílum hefur enn ekki verið ekið nægilega lengi til þess að marktæka spá megi gera. Ellefu slys eru einfaldlega of fá gildi í til að alhæfa um raunveruleikann.
Þá ríkir nokkur óvissa um hversu mörg bílslys verða almennt í umferðinni, meðal mennskra ökumanna. Ekki er víst að öll slys séu tilkynnt til lögreglu eða tryggingarfélaga, sérstaklega minni óhöpp þar sem ekki verða slys á fólki eða eignatjón. Þetta er mikilvægt því svo virðist sem að sjálfakandi bílar lendi frekar í minniháttar óhöppum en slysum þar sem mikið eignatjón verður eða slys á fólki. Aðeins tvö af ellefu slysum sjálfakandi bíla urðu til þess að fólk slasaðist. Í almennri umferð er hlutfallið hins vegar 28 prósent.
Eins og Kjarninn greindi frá í september þá eru sjálfakandi bílar aðeins að slíta barnskónum og ekki nærri því tilbúnir til þess að takast á við hvaða aðstæður sem er. Í samtali við Kjarnann sagði Dr. Ralf G. Herrtwich, stjórnandi hjá Mercedes í deild sjálfakandi bíla, að sjálfakandi bílar gætu til dæmis ekki ráðið við mikla hálku, snjó og flóknari aðstæður. Til þess væri tæknin einfaldlega ekki nógu fullkomin. Þeim bílum sem voru til rannsóknar í Michigan var öllum ekið í Texas og Kaliforníu þar sem vetur eru mildir í versta falli.
Hlusta má á samtalið við Dr. Herrtwich hér að neðan.