Íslenska karlalandsliðið er til umfjöllunar í öllum stærstu fjölmiðlum heims í dag eftir frábært jafntefli gegn Portúgal á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu karla í gærkvöldi. Birkir Bjarnason skoraði jöfnunarmark Íslands en fyrirfram spáðu sparkspekingar Íslandi erfiðum leik gegn stjörnuprýddu liði Portúgal.
Skærasta stjarna þeirra Portúgalanna, Cristiano Ronaldo leikmaður Real Madrid á Spáni, var verulega vonsvikinn eftir leikinn gegn Íslandi. Sögur segja að hann hafi neitað að taka í höndina á íslensku leikmönnunum eftir leik eins og venja er eftir kappleiki af þessu tagi. Þegar fjölmiðlafólk náði tali af honum á leið frá leikvanginum í Saint Étienne lét hann svo smánarleg orð falla um Ísland. Ísland hafi ekki spilað leikinn heldur bara varist. „Að mínu viti er smámennabragur á þessu og þeir eru ekki að fara gera neitt í keppninni,“ sagði Ronaldo.
Vefútgáfa breska götublaðsins The Mirror gerir Ronaldo einna best skil eftir leikinn í gær. Þar veltir blaðamaðurinn fyrir sér hvað einn besti knattspyrnumaður sögunnar var að hugsa eftir því sem leið á leikinn, útfrá svipbrigðum kappans.
Víðlesnasta dagblaðið í Portúgal, Correio da Manhã, birtir stóra mynd af Kára Árnasyni og Cristiano Ronaldo á forsíðu sinni í dag með fyrirsögninni „Ískaldur fótbolti – sæluvíman fryst“.
Í samtali við sama blað viðurkennir Ronaldo að smá taugaveiklun hafi einkennt þennan fyrsta leik liðsins á EM 2016. Hann er iðulega kallaður CR7 í portúgölskum miðlum. „Þetta er byrjað og nú höfum við engu að tapa. Við erum búnir að ná einum punkti á töfluna og við verðum að vera jákvæðir. Við getum ekki séð eftir þessu,“ er haft eftir CR7 áður en vandlætingu hans á leikstíl Íslands er lýst.
Bresku blöðin eru flest uppteknari af leik Englands og Wales á morgun en sum blöðin gefa leik Íslands pláss og leika sér, eins og von var á, með ís, frost og snjó. Íþróttaútgáfa götublaðsins i birtir stóra mynd af Birki Bjarnasyni undir fyrirsögninni „The ice men cometh“.
The Guardian var með beina textalýsingu frá leiknum á vef sínum. Í lok leiks er haft eftir Patrick Sullivan, lesanda Guardian, að þetta jafntefli sé stærsta augnablik Íslandssögunnar síðan á 13. öld, eða þegar Íslendingar hófu að rita Íslendingasögurnar í fyrsta sinn. „Þangað til voru það söguljóð, þjóðsögur og sagnir sem voru lagðar á minnið. Ég velti fyrir mér hvað verður skrifað um þetta!“
Í Austurríki fjallar Kronen Zeitung, eitt víðlesnasta blað þar í landi, einnig um Ronaldo og ummæli hans eftir leikinn. Leikur Austurríkis og Ungverjalands er þó í fyrrirúmi en þau lönd leika einnig í F-riðli mótsins eins og Ísland og Portúgal.
Venjulegur fótbolti er alltaf að verða vinsælli og vinsælli í Bandaríkjunum, þó hinn ameríski sé alltaf jafn vinsæll. USA Today fjallar um jafntefli Íslands undir fyrirsögninni: „Iceland earns stunning draw against Portugal at Euro 2016“. Það er ekki oft sem fréttir af fótbolta fjalli um sláandi jafntefli enda eru slík úrslit yfirleitt akkúrat ekki sláandi.
Í Danmörku hefur Politiken breytt haus vefsins og málað merki sitt í íslensku fánalitunum og til hliðar ritað „Áfram Ísland! Tillykke med det første point, Island!“. Takk fyrir það, Danir. Vonandi fáið þið líka að vera með næst. Í gær hafði forsíða prentuðu útgáfu Politiken prýtt íslenska fánann og skilaboðum beint til Íslendinga: „Skrúfið aðeins niður í væntingunum.“