Samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna voru 65.3 milljónir manna á flótta, hælisleitendur eða á vergangi við lok árs 2015. Þetta er aukning um 5 milljónir á einu ári. Þetta kemur meðal annars fram í frétt BBC um málið. Í skýrslu SÞ segir að þetta sé í fyrsta skiptið í sögunni sem fjöldi flóttamanna fer yfir 60 milljónir.
Þetta jafngildir einum af hverjum 113 manns í heiminu en flestir koma frá Sýrlandi, Afganistan og Sómalíu. Í skýrslunni kemur einnig fram að 24 manneskjur þurfi að flýja heimkyni sín á hverri mínútu og að helmingur þeirra sé börn undir 18 ára. Þetta gegnumstreymi af fólki sé það mesta síðan í seinni heimstyrjöldinni en það hefur ýtt undir útlendingahatur og öfga-hægri stefnu í Evrópu að margra mati.
Filippo Grandi, yfirmaður flóttamannamála SÞ, hefur áhyggjur af þróun mála í Evrópu og hann hvetur leiðtoga í Evrópu að samræma reglur um flóttamenn og leiðrétta neikvæðar staðalímyndir um hælisleitendur. Hann segir að flóttamenn séu ekki ógn, þeir séu hins vegar að flýja ógnandi aðstæður og að þeir hafi góð áhrif á þróun samfélaga.
En þrátt fyrir mikinn flóttamannastraum inn í Evrópu þá kemur fram hjá SÞ að 86% flóttamanna séu nú í fátækari ríkjum eins og til dæmis Tyrklandi, Pakistan og Líbanon. Eftirsóttustu löndin séu þó hin ríkari, eins og Þýskaland, Bandaríkin og Svíþjóð.
Kjarninn fjallaði um í síðustu viku þá gríðarlegu aukningu sem orðið hefur í umsóknum um vernd á Íslandi fyrstu fimm mánuði ársins miðað við í fyrra.