Stuðningur við Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna og Viðreisn mælist nánast jafn mikill í nýrri kosingaspá sem gerð var í dag. Framsóknarflokkurinn mælist með aðeins 9,1 prósent fylgi, Samfylkingin með níu prósent og Viðreisn með 8,8 prósent eftir að ný spá var gerð með nýjum könnunum. Ekki er marktækur munur á fylgi þessara framboða.
Framsóknarflokkurinn hefur mælst með um tíu prósent fylgi síðan í byrjun apríl, eða þegar formaður flokksins sagði af sér sem forsætisráðherra vegna uppljóstrana úr Panamaskjölunum svokölluðu. Flokkurinn hefur ekki mælst með minna fylgi í um mánuð núna og ekki hefur verið svo mjótt á munum milli hans og Samfylkingar síðan um miðjan apríl.
Samfylkingin hefur bætt við sig fylgi í hverri kosningaspá sem gerð hefur verið síðan í byrjun maí, en þar áður hafði flokkurinn tapað fylgi í nær öllum kosningaspám frá áramótum. Fylgi við Samfylkinguna hefur ekki verið hærra síðan 1. apríl. Síðan þá hafa orðið formannsskipti í flokknum; Oddný Harðardóttir tók við keflinu af Árna Páli Árnasyni 3. júní. Þá mældist fylgi Samfylkingarinnar aðeins 7,2 prósent.
Í Alþingiskosningunum árið 2013 hlaut Framsóknarflokkurinn 24,4 prósent atkvæða á landsvísu og 19 kjörna þingmenn. Samfylkingin hlaut 12,9 prósent atkvæða á landsvísu og fékk níu þingmenn kjörna.
Viðreisn tapar örlitlu fylgi síðan kosningaspáin var gerð síðast 3. júlí. Þá mældist fylgið við framboðið 9,5 prósent en það er nú 8,8 prósent. Síðan Viðreisn var mæld fyrst 1. apríl hefur fylgið aukist jafnt og þétt í nærri öllum kosningaspám.
Píratar eru sem fyrr með mest fylgi þeirra flokka sem hyggjast bjóða fram í fyrirhuguðum Alþingiskosningum í haust. Fylgi við Pírata mælist nú 27,3 prósent og fellur um rúmt prósentustig milli kosningaspáa. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 0,6 prósentustigum á sama tímabili og mælist nú með 23,6 prósent fylgi. Vinstri græn bæta við sig hálfu prósentustigi og eru nú með 16,6 prósent stuðning.
Björt framtíð mælist enn með mjög lítið fylgi og lækkar enn í nýjustu kosningaspánni og er með 3,5 prósent stuðning. Flokkurinn fékk 8,2 prósent atkvæða í kosningunum 2013 og sex þingmenn kjörna. Ætla má að framboð þurfi um fimm prósent atkvæða á landsvísu til þess að ná kjöri. Ekki er enn farið að mæla stuðning við framboð til Alþingis eftir kjördæmum fyrir fyrirhugaðar kosnignar í haust.
Önnur framboð myndu samtals fá 2,1 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Framboð sem mælast með minna en eitt prósent í kosningaspánni eru flokkuð sem „aðrir“.
Nýjasta kosningaspáin var gerð 7. júlí og er byggð á fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða. Nýjasta könnunin vegur í þetta sinn ekki þyngst sökum stærðar könnunar Gallup sem birt var 3. júlí. Áður en könnun er bætt við kosningaspána hlýtur hún vægi gagnvart öðrum fyrirliggjandi könnunum sem byggir meðal annars á lengd könnunartímabilsins og fjölda svarenda. Kannanirnar sem liggja til grundvallar kosnignaspánni 7. júlí eru:
- Skoðanakönnun MMR 27. júní til 4. júlí (vægi 26,1%)
- Þjóðarpúls Gallup 26. maí til 29. júní (vægi 36,7%)
- Skoðanak. Félagsvísindast. HÍ f. Morgunbl. 19. til 22. júní (vægi 23,4%)
- Skoðanak. Félagsvísindast. HÍ f. Morgunbl. 8. til 12. júní (vægi 13,8%)
Hvað er Kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.