John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundar með utanríkisráðherrum aðildarríkjum Evrópusambandsins og Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra ESB, í dag. Þau lögðu áherslu á að Tyrkir yrðu að fylgja lögum og reglu í meðferð þeirra á þeim sem taldir eru bera ábyrgð á valdaránstilrauninni í Tyrklandi á föstudag.
Tyrkland er aðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og þaðan hafa vestræn ríki flogið hernaðarleiðangra yfir yfirráðarsvæði Íslamska ríkisins í Sýrlandi og Írak. Allar slíkar ferðir frá Tyrklandi voru stöðvaðar við valdaránstilraunina á föstudag, enda var loftrými Tyrklands lokað.
Kerry lagði áherslu á það þegar þau Mogherini ávörpuðu blaðamenn fyrir fund utanríkisráðherranna að NATO hefði strangar reglur um að lýðræði væri við lýði í aðildarríkjum hernaðarbandalagsins. NATO myndi í framhaldinu „fylgjast náið með framvindunni“ í Tyrklandi. Í stofnsáttmála NATO, Atlantshafssáttmálanum, sem undirritaður var 1949 segir í inngangi að aðilar bandalagsins séu „staðráðnir í því að varðveita frelsi þjóða sinna, […] er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsi og lögum og rétti.“
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lagði það til í ræðu á sunnudag að tyrkneska þingið myndi íhuga að taka upp dauðarefsingu í landinu á ný eftir atburði föstudagsins. Það gæti þingið gert í krafti þess sem stuðningsmenn hans hrópuðu á strætum og þess hvað klerkar í moskum hafa farið fram á. „Við getum ekki hundsað þessa kröfu,“ sagði Erdogan í æstum múg fyrir utan heimili hans í gær. „Í lýðræðisríkjum þarf það að gerast sem fólkið vill að gerist.“
Þegar hafa meira en 7.500 manns verið handteknir í Tyrklandi í kjölfar valdaránstilraunarinnar. Í fjölmiðlum hefur verið talað um pólitískar hreinsanir í landinu. Meðal þeirra sem handteknir hafa verið eru hæstaréttardómarar, hermenn, lögreglumenn, yfirmenn í stjórnsýslu landsins og fleiri valdamenn. Handtökurnar eru oftar en ekki hrottafengnar. Ljósmyndir sýna suma handjárnaða við gólfið á lögreglubílum og afklædda. Fólkinu er svo ýmist haldið í fangelsum eða stórum íþróttasölum sem breytt hefur verið í bráðabrigðafangelsi.
Fjölmargir leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja hafa stigið fram og hvatt stjórnvöld í Anakara til að fara að lögum og reglu í uppgjöri sínu við þá sem stóðu að valdaránstilrauninni. Kerry og Mogherini ítrekuðu þetta á fundi sínum í dag. Talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hefur sagt að Tyrkland geti gleymt Evrópusambandsaðild verði dauðarefsingar teknar upp á ný.
Haft er eftir Lilju Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra Íslands, á vef ráðuneytisins að Íslendingar hvetji til stillingar og sátta í Tyrklandi. „Lýðræðislega kjörin stjórnvöld halda völdum mikilvægt er að stöðugleiki komist á sem fyrst. […] Vopnað valdarán gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum er árás á lýðræðið. Á alþjóðavettvangi talar Ísland fyrir lýðræðislegum ferlum og mannréttindum sem öllum ríkisstjórnum ber að virða.“
Bandaríkin og Evrópusambandið styðja stjórnvöld í Tyrklandi og standa með stjórnvöldum þar í landi um að þeir sem stóðu að valdaráninu verði sóttir til saka. „Við gerum hins vegar einnig þá kröfu að stjórnvöld í Tyrklandi beiti sér af yfirvegun og gæti jafnræðis í landinu,“ sagði Kerry í dag. Hann bætti við að nú vonaðist hann til að tyrknesk stjórnvöld myndu standa við það sem þau segja að sé hornsteinninn að landinu þeirra, og átti þar við umdeildar lýðræðisyfirlýsingar Erdogans forseta.
Meira en 290 manns létust í valdaránstilrauninni og um það bil 1.400 manns særðust á föstudagskvöld og í mótspyrnu tyrnkeskra stjórnvalda í kjölfarið. Í dag var um 8.000 lögreglumönnum sagt upp störfum vegna meintra tengsla þeirra við valdræningja.
Í NATO eru nú 28 ríki. Ísland er meðal stofnaðila Atlantshafsbandalagsins. Tyrkland fékk inngöngu árið 1952. Frá 1999 hefur mörgum af ríkjum Austur-Evrópu verið veitt aðild að NATO; mörg þeirra voru hluti af Varsjárbandalaginu sem var svar austantjaldslanda við Atlantshafsbandalaginu. Bandaríkin eru eina aðildarríki NATO sem leyfir dauðarefsingar.