Alþjóða ólympíunefndin hefur ákveðið að banna ekki alla rússneska íþróttamenn á Ólympíuleikunum í Ríó sem haldnir verða í næsta mánðuði. Einstaka íþróttamenn gætu hins vegar hlotið bann ef sérsambönd ákveða að meina Rússum þátttöku.
Öllu frjálsíþróttaliði Rússa hefur verið bannað að taka þátt á Ólympíuleikunum eftir að rannsókn leiddi í ljós víðtækt lyfjasvindl rússnesks frjálsíþróttafólks. Alþjóða frjálsíþróttasambandið greip til þess ráðs í júní að banna alla rússa frá keppni í frjálsum íþróttum á mótinu jafnvel þó að ekki hafi verið sýnt fram á að allir hefðu notað lyf eða hagrætt lífsýnum við lyfjaprófanir. Það er hins vegar undir hverjum og einum íþróttamanni komið að sýna fram á sakleysi sitt.
Önnur skýrsla um rannsókn á lyfjasvindli Rússa á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi árið 2014 jók svo pressuna á alþjóða ólympíunefndina um að banna alla Rússa frá mótinu. Sú rannsókn sýndi fram á að skipun um lyfjasvindl og hagræðingu lífsýna kom beint frá íþróttamálaráðuneytinu í Kreml.
Thomas Bach, formaður alþjóða ólympíunefndarinnar, hafði áður sagt að honum hugnaðist ekki að refsa öllum rússneskum íþróttamönnum fyrir brot sumra. Fimmtán manna stjórn nefndarinnar tók svo ákvörðunina í dag. Minna en tvær vikur eru í að leikarnir verða settir í Ríó 5. ágúst.
Nefndinr útskýrir ákvörðun sína þannig að það sé réttlátt að leyfa þeim íþróttamönnum sem ekki hafa verið bendlaðir við svindl að njóta vafans. Hins vegar verði íþróttamennirnir rússnesku að sætta sig við að það gæti verið nauðsynlegt að meina þeim þátttöku til þess að vernda trúverðuleika ólympískra íþróttagreina. Þeir sem hafa verið gripnir við lyfjasvindl fá alls ekki að keppa í Rio.
Keppt verður í 28 íþróttagreinum á Ólympíuleikunum í Ríó.