Evrópusambandið hefur ráðið sér samningamann í Brexit-viðræðunum. Sá heitir Michel Barnier og er fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Frakklands. Hann hefur einnig gengt embætti framkvæmdastjóra innri markaðarins og verið varaforseti framkvæmdastjórnar ESB. Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, tilkynnti þetta í dag.
Barnier er þekktur fyrir harða afstöðu sína með fjórfrelsinu sem grunnstoð Evrópusamstarfsins og hins frjálsa markaðar. Samningamaðurinn mun ekki hefja störf fyrr en 1. október næstkomandi. Hann segist ekki ætla að hafa neitt samband við Breta fyrr en formleg úrsagnarbeiðni hefur borist til Brussel.
Þegar Barnier var framkvæmdastjóri innri markaðar ESB á árunum 2010 til 2014 hafði hann yfirumsjón með aðgerðum sambandsins til að stemma stigu við Evrukrísuna og koma á fót traustari löggjöf um fjármálakerfi á markaðinum. Þrengri skilyrði fóru sérstaklega illa í Breta og fjármálahverfið í London, City of London. Barnier lagðist hart gegn því að Bretland fengi auknar undanþágur frá fjármálalöggjöfinni.
Forkólfar í City of London hafa síðan náð að gera grýlu úr Barnier sem ætíð hefur lagt áherslu á að hinn frjálsi markaður væri ekki nammibar sem hægt væri að velja sér bland í poka úr. Segja má að Brexit sé að einhverjum hluta til eftirköst af þessari hörðu afstöðu Barnier og ESB gagnvart Bretum. David Cameron, formaður Íhaldsflokksins breska í aðdraganda þingkosninga 2015, lofaði þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild Bretlands að ESB til að mæta auknum þrýstingi innan flokks síns og utan, meðal annars vegna harðari skilyrða vegna Evru-krísunnar.
Eiginlegar samningaviðræður munu ekki hefjast fyrr en Bretland hefur formlega óskað eftir úrsögn úr sambandinu. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að beiðnin verði ekki send yfir Ermarsundið fyrr en bresk stjórnvöld hafa undirbúið samningsmarkmið sín og fyrirhugaða úrsögn.
Haft er eftir Junker á vef Evrópusambandsins að hann hafi viljað fá reyndan stjórnmálamann í hlutverk samningamanns ESB gagnvart Bretum. „Michel er hæfileikaríkur samningamaður með mikla reynslu í veigamestu málaflokkunum sem eru undir í Brexit-viðræðunum,“ sagði Junker. Reynsluna hafi hann fengið sem ráðherra utanríkismála og landbúnaðar í Frakklandi, sem meðlimur í framkvæmdastjórn ESB og yfirmaður svæðisstefnumótunar, stofnannaumbóta og innri markaðarins.
Junker telur Barnier það einnig til tekna að þekkja vel til í hinum ýmsu stofnunum sambandsins og víðtækt tengslanet hans meðal stjórnvalda aðildarríkja ESB. Samningamaðurinn mun heyra beint undir forseta framkvæmdastjórnarinnar og veita honum reglulega upplýsingar um gang mála á meðan viðræðum við Breta stendur.
Sjálfur segist Barnier vera upp með sér með skipanina. Hann lýsti því á Twitter á helstu tungumálum Evrópusambandsins; ensku, frönsku og þýsku.
Theresa May er enn á flakki um Evrópu með það að markmiði að hitta aðra leiðtoga aðildarríkja ESB. Hún hittir Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, í Róm í dag og heldur svo áfram til Slóvakíu og Póllands.