Eftir Brexit kosninguna í júní, þar sem breskur almenningur kaus með því að yfirgefa Evrópusambandið, hefur staða efnahagsmála í Bretlandi farið versnandi.
Áhyggjuraddirnar nú koma ekki síst úr fjármálahverfinu í London, City, en samkvæmt upplýsingum sem breska ríkisútvarpið BBC fjallar um á vef sínum, þá eru alþjóðlegir bankar þegar byrjaðir að undirbúa flutning á starfsemi sinni frá London til Parísar í Frakklandi.
Benoit de Juvigny, einn yfirmanna fjármálaeftirlitsins í Frakklandi, segir í viðtali við Newsnight að stórir alþjóðlegir bankar séu þegar búnir að stíga fyrstu skrefin í átt að flutningi og mörg fleiri fyrirtæki hafi einnig spurst fyrir um hvernig best sé að standa að slíkum flutningi.
Í umfjöllun BBC kemur einnig fram að nokkur samkeppni sé nú hafin meðal borgarsvæða í Evrópu sem vilja taka á móti fyrirtækjum sem eru með höfuðstöðvar Evrópudeilda sinna í London. Eru það meðal annars Frankfurt, Amsterdam og Lúxemborg.
Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir Bretland enda hefur City hverfir byggst upp sem ein helsta fjármálamiðstöð heimsins á undanförnum árum. Yfir 700 þúsund manns starfa í fjármálageiranum, og skyldum geirum, í London.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að bresk stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi standi til að tryggja efnahagsmála hagsmuni Bretlands við útgöngu úr Evrópusambandinu. Ekki liggur enn fyrir hvernig að henni verður staðið, en fyrir liggur að breska þingið mun hafa lokaorðið um ákvörðunina.