Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, ætlar að leita samþykkis skoska þingsins fyrir því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Hún sér fyrir sér að slík atkvæðagreiðsla færi fram einhvern tímann á tímabilinu frá hausti 2018 til vors 2019, að minnsta kosti áður en útgöngusamningur úr Evrópusambandinu liggur fyrir.
Þetta kom fram í ræðu Sturgeon í morgun. Hún segir að ákvörðunin um að boða til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu sé á forræði Skota, en engu að síður þarf að ræða og fá samþykki breskra stjórnvalda fyrir slíkri atkvæðagreiðslu eigi hún að vera bindandi.
Tæknilega séð gæti Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagt nei við slíkri bón frá Skotum, en pólitískt séð yrði mjög erfitt fyrir stjórnvöld að neita því alfarið. May hefur ekki gefið til kynna hvað hún myndi gera, en talsmaður hennar sagði í dag að það væri vitað að meirihluti fólks í Skotlandi vildi ekki aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Aðeins rúm tvö ár séu frá því að þeir kusu gegn sjálfstæði og önnur atkvæðagreiðsla yrði sundrandi og myndi valda efnahagslegum skaða á versta mögulega tíma.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands fór fram í september árið 2014, þá kusu 55% Skota gegn sjálfstæði en 45% með sjálfstæði. Ein stærsta ástæða þess að sjálfstæði Skotlands varð ekki ofan á þá var að Skotum var sagt að þeir yrðu að sækja aftur um aðild að Evrópusambandinu sem sjálfstætt ríki. Skotar eru að meirihluta til Evrópusinnaðir og meirihluti Skota greiddi atkvæði gegn útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Nicola Sturgeon sagði í dag að almenningur í Skotlandi yrði að fá val á milli harðrar útgöngu úr ESB, svokallað hard Brexit, og sjálfstæðis.