Hæstiréttur Danmerkur dæmdi í morgun fyrrverandi stjórnarformann og framkvæmdastjóra félagsins Parken Sport & Entertainment, sem rekur meðal annars leikvöllinn Parken í Kaupmannahöfn og knattspyrnuliðið FC København, í eins og hálfs árs fangelsi hvor fyrir markaðsmisnotkun. Auk þess var ávinningur þeirra að markaðsmisnotkuninni gerður upptækur. Frá þessu er greint á vef Børsen.
Parken Sport & Entertainment var gefið að hafa átt viðskipti með eigin bréf á árunum 2007 og 2008 og þar með orðið uppvíst að markaðsmisnotkun. Félagið keypti mikið af eigin bréfum á fyrstu níu mánuðum ársins 2008 og kom þannig í veg fyrir að virði þeirra félli.
Þeir sem dæmdir voru í málinu voru Flemming Østergaard, sem var árum saman stjórnarformaður Parken Sport & Entertainment, og Jörgen Glistrup, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins. Danska fjármálaeftirlitið lauk rannsókn sinni í ágúst 2010 og kærði málið í kjölfarið til efnahagsbrotadeildar.
Ávinningur gerður upptækur
Hæstiréttur felldi sinn dóm í málinu í morgun. Þeir Østergaard, sem oftast er kallaður Don Ø, og Glistrup, voru dæmdir í eins og hálfs árs fangelsi hvor. Auk þess voru gerðar upptækar níu milljónir danskra króna, um 145 milljónir íslenskra króna, hjá Østergaard. Yfirvöld gerðu upptækar 800 þúsund danskar krónur hjá Glistrup, um 13 milljónir íslenskra króna. Fjármunirnir eru áætlaður ávinningur þeirra tveggja af hlutabréfaeign sinni í Parken Sport & Entertainment sem rekja mátti til markaðsmisnotkunarinnar. Auk þeirra var miðlari dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að hafa tekið þátt í verknaðinum.
Hæstiréttur þyngdi umtalsvert dóm undirréttar í málinu sem féll í september 2015. Þar höfðu Østergaard og Glistrup verið sýknaður af veigamesta hluta ákærunnar og dæmdir í fjögurra og sex mánaða fangelsi.
Markaðsmisnotkun á Íslandi
Embætti sérstaks saksóknara, sem nú hefur runnið inn í embætti héraðssaksóknara, hefur rannsakað markaðsmisnotkun gömlu íslensku bankanna þriggja: Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, um margra ára skeið. Þegar hefur verið ákært fyrir brot innan þeirra allra, og dæmt í allsherjarmarkaðsmisnotkunarmálum Kaupþings og Landsbankans.
Hjá Landsbankanum var Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrum forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, og Júlíus S. Heiðarsson, sem var sérfræðingur í sömu deild, og Sindri Sveinsson, sem starfaði við eigin fjárfestingar hjá Landsbankanum, allir dæmdir sekir um markaðsmisnotkun í Hæstarétti í febrúar 2016. Sigurjón hlaut eins árs og sex mánaða fangelsisdóm. Ívar var dæmdur í tveggja ára fangelsi en Júlíus og Sindri hlutu eins árs fangelsisdóma.
Mennirnir fjórir voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Samkvæmt ákæru áttu þeir að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt „fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.“
Hæstiréttur Íslands dæmdi í október 2016 alla níu sakborninganna í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings seka. Refsing sex sakborninga var ákveðin sú sama og í héraði, refsing eins var þyngd en tveimur var ekki gerð sérstök refsing.
Ingólfur Helgason hlaut þyngstan dóm í málinu, fjögurra og hálfs árs fangelsi. Bjarki H. Diego hlaut tveggja og hálfs árs dóm, Einar Pálmi Sigmundsson tveggja ára skilorðsbundinn dóm og Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson fengu báðir 18 mánaða skilorðsbundinn dóm. Sigurður Einarsson fékk eins árs hegningarauka við þann fjögurra ára dóm sem hann hlaut í Al Thani-málinu. Magnúsi Guðmundssyni og Björk Þórarinsdóttur var ekki gerð sérstök refsing fyrir þau brot sem þau voru dæmd fyrir.
Refsing Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, var þyngd og honum gerður sex mánaða hegningarauki.
Fyrir um ári síðan voru fimm fyrrverandi starfsmenn Glitnis ákærðir fyrir stórfellda markaðsmisnotkun og umboðssvik. Með útgáfu ákærunnar var það staðfest að rökstuddur grunur er um að allir stóru bankarnir þrír hafi stundað umfangsmikla markaðsmisnotkun fyrir hrun.
Þeir fimm sem voru ákærðir eru Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, og þrír fyrrverandi miðlarar, þeir Jónas Guðmundsson, Valgarð Már Valgarðsson og Pétur Jónasson. Aðalmeðferð málsins hefur enn ekki farið fram.