Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, undirritaði bréf þess efnis að breska ríkisstjórnin óskaði eftir að 50. grein Lisabon-sáttmálans verði virkjuð í gærkvöldi og Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins, tók við því í dag.
Bretland er þess vegna formlega orðið fyrsta aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) sem óskar eftir því að ganga úr samstarfinu í nærri 60 ára sögu Evrópusamvinnunar.
„Bretland yfirgefur Evrópusambandið,“ sagði May í breska þinginu. „Þetta er sögulegur atburður og héðan af verður ekki aftur snúið.“
Í bréfinu til Donalds Tusk útskýrir May afstöðu Breta til útgöngunnar. „Eins og ég hef áður sagt, þá var ákvörðunin ekki höfnun á þeim gildum sem við deilum með Evrópubúum. Hún var heldur ekki tilraun til þess að koma höggi á ESB eða aðildarríki þess. [...] Við erum að yfirgefa Evrópusambandið en við yfirgefum ekki Evrópu.“
Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins, tók við bréfinu í Brussel í dag úr hendi Tim Barrow, fastafulltrúa Bretlands gagnvart Evrópusambandinu. Tusk sagði á blaðamannafundi sem hann hélt við þetta tilefni að Evrópusambandið væri ósátt með að Bretland skyldi vilja yfirgefa sambandið.
Evrópusambandið mun reyna eftir fremsta megni að takmarka þann kostnað sem íbúar aðildarríkjanna og fyrirtæki munu hljóta vegna Brexit. „Við söknum ykkar nú þegar. Takk fyrir og bless,“ sagði Tusk að fundinum loknum.
Tusk ítrekaði það sem leiðtogar Evrópusambandsins hafa haldið til streitu; að samningaviðræðurnar muni verða mjög erfiðar og flóknar, enda hyggist Evrópusambandið ekki ætla að gefa eftir í viðræðunum.
Með bréfi May til yfirstjórnar Evrópusambandsins er það orðið að veruleika að Bretland mun ganga úr sambandinu endanlega árið 2019, hvort sem Bretum tekst að semja um viðskiptakjör og önnur málefni eða ekki.
Eftir að May tók við forsætisráðherra Bretlands í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar síðasta sumar lýsti hún því yfir að hún myndi óska eftir útgöngu áður en mars 2017 yrði úti.
Evrópusamvinnan hófst með stofnun Evrópubandalagsins árið 1957 þegar Rómarsáttmálinn var undirritaður af fulltrúum Frakklands, Vestur-Þýskalands, Ítalíu, Belgíu, Hollands og Lúxemborg. Bretland gekk í Evrópubandalagið árið 1973 og Bretar staðfestu þátttöku sína í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1975.
Síðan 1957 hafa fjölmörg lönd bæst í hópinn og fleiri sáttmálar verið undirritaðir sem bundið hafa aðildarríkin 28 tryggum böndum. Ætlunin er að þessa fjötra muni Bretland og Evrópusambandið leysa í sameiningu á næstu tveimur árum.
Tusk mun á næstu tveimur sólarhringum senda hinum aðildarríkjunum 27 uppkast að þeirri línu sem Evrópusambandið hyggist draga í viðræðunum. Sendifulltrúar ríkjanna 27 munu í kjölfarið funda í Brussel og ræða uppkast forsetans.
Allt bendir til þess að viðræðurnar verði mjög snúnar fyrir Bretland enda eru fjölmargir þættir sem snerta daglegt líf almennings í Bretlandi til umræðu. Þá hafa Skotar ákveðið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði á ný vegna Brexit. Breska konungsríkið gæti þess vegna allt eins liðast í sundur á meðan samningaviðræðunum stendur.