Á síðustu tveimur vikum hefur nokkuð haldið aftur að gengisstyrkingu krónunnar, en gengi hennar gagnvart evru, pundi og Bandaríkjadali hefur veikst umtalsvert á síðustu tveimur vikum. Samhliða gengislækkuninni hafa hlutabréf HB Granda og Icelandair hækkað.
Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst undanfarin ár samhliða sterkum þjónustuútflutningi vegna ferðaþjónustunnar. Síðustu tvær vikur hefur hún hins vegar veikst gagnvart pundi, evru og Bandaríkjadal.
Hröðust hefur gengislækkunin verið gagnvart pundinu, eða um 6% á rúmri viku. Samkvæmt heimildum Kjarnans mætti örugglega skýra gengislækkun krónunnar að miklu leyti með því að lífeyrissjóðir séu farnir að fjárfesta erlendis, með tilheyrandi útstreymisáhrifum.
Áhrif gengisveikingarinnar er hægt að sjá í gengi íslenskra hlutafélaga sem gera upp í erlendri mynt, en HB Grandi hefur hækkað um 6,58% og Icelandair um 2,31% í Kauphöllinni það sem af er dags. Einnig má búast við einhverri veikingu í framtíðinni ef fjárfestingar og skuldsetningar íslendinga í erlendum gjaldmiðlum færu að aukast.
Kjarninn hefur fjallað um breytt neyslumynstur ferðamanna á undanförnum mánuðum, en kortavelta hvers ferðamanns virðist hafa minnkað um 20% á síðustu fimm árum vegna gengisstyrkingar.