Stuðningur Breta við aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu eykst og er hefur nú aldrei verið meiri síðan breska þjóðin ákvað að ganga úr ESB í kosningum í fyrra.
Frá þessu er greint á vef Business Insider.
41 prósent svarenda í könnun Opinium í Bretlandi sögðust vilja að önnur atkvæðagreiðsla færi fram. Enn eru þó fleiri sem vilja ekki aðra þjóðaratkvæðagreiðslu, eða 48 prósent svarenda.
Hlutföllin hafa hins vegar breyst nokkuð á síðustu mánuðum. Um miðjan desember í fyrra voru aðeins 33 prósent svarenda á því að ný þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram. Þá sögðust 52 prósent ekki vilja taka afstöðu til ESB-aðildar aftur. Munurinn hefur þess vegna minnkað úr 19 prósentustigum í 7 prósentustig.
Í þingkosningunum í Bretlandi í síðasta mánuði fengu þeir flokkar sem styðja Brexit meira en 80 prósent atkvæða. Í kosningunum tapaði Íhaldsflokkurinn, flokkur forsætisráðherrans Theresu May, meirihluta á þinginu. May er enn forsætisráðherra en stýrir minnihlutastjórn með stuðningi hins norðurírska sambandsflokks.
Þessi aukni stuðningur við nýja þjóðaratkvæðagreiðslu skýrist að mestu vegna aukins stuðnings þeirra sem kusu með áframhaldandi aðild í atkvæðagreiðslunni í fyrra. Tæpur helmingur Breta kaus með áframhaldandi aðild. 69 prósent þeirra vilja nú að önnur atkvæðagreiðsla fari fram, samanborið við 11 prósent þeirra sem kusu með Brexit.
Fleiri hneigjast að áframhaldandi aðild
Þegar skoðanir svarenda voru kannaðar í könnun Opinium kom í ljós að fleiri hafa sterkari skoðun um að Bretland eigi að vera áfram í Evrópusambandinu en þeir sem vilja ganga út.
Samanlagt sögðust fleiri vera á þeirri skoðun að Bretland ætti að vera áfram í ESB, eða 46 prósent svarenda. 41 prósent svarenda sögðust vera þeirrar skoðunar að Bretland ætti að ganga út. Átta prósent sögðust ekki hafa skoðun á þessu og sex prósent sögðust ekki geta svarað spurningunni.
Spurt var hvaða fullyrðingar lýstu skoðunum svarenda á Brexit.
- Ég hef skýra skoðun á því að Bretland á að vera áfram í ESB – 34%
- Mér finnst að Bretland ætti að vera áfram í ESB en hef ekki sterka skoðun á því – 12%
- Ég hef ekki skoðun á því hvort Bretland sé áfram í ESB eða gangi út – 8%
- Mér finnst að Bretland eigi að ganga úr ESB en hef ekki sterka skoðun á því – 8%
- Ég hef skýra skoðun á því að Bretland á að ganga úr ESB – 33%
- Ég veit það ekki – 6%
Þrátt fyrir þessar niðurstöður er nokkuð víst að Brexit mun verða, enda eru viðræður Breta og fulltrúa Evrópusambandsins þegar hafnar. Theresa May hefur virkjað 5. grein Lisabon-sáttmálans og klukkan tifar. Bretland verður að óbreyttu ekki lengur aðili að ESB í mars 2019.
Undanfarið hafa hins vegar fleiri sterkar raddir heyrst sem tala um að hægt sé að afstýra Brexit og hætta við útgöngu. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Verkamannaflokksins, er einn þeirra. Hann er þeirrar skoðunar (sem hann viðrar nú ítrekað) að Bretland megi ekki ganga út.
„Ég tel það vera mögulegt núna að Brexit verði ekki. Ég tel það algjörlega nauðsynlegt að það gerist ekki vegna þess að á hverjum degi berast okkur nýjar vísbendingar um að þetta sé að skaða efnahaginn okkar... og stjórnmálin,“ sagði Blair í samtali við Sky News.
David Davis, Brexitráðherra í Bretlandi, hélt til Brussel í dag til þess að halda útgönguviðræðunum gangandi.