Hlutabréfamarkaðurinn í London og tölvurisinn IBM hafa ákveðið að búa til markað fyrir Blockchain-tæknina á Ítalíu, en markaðurinn á að sjá um útgáfu smárra og meðalstórra hlutabréfa ítalskra fyrirtækja. Þetta kemur fram á vef Reuters í dag.
Borsa Italiana, dótturfyrirtæki hlutabréfamarkaðarins í London (LSEG) sér um uppbyggingu og prófanir á nýja markaðnum, en að sögn fyrirtækjanna myndu breytingarnar bæta úr upplýsingaflæði óskráðra fyrirtækja.
Hvað er Blockchain?
Blockchain er færslukerfi sem upphaflega var þróað í kringum rafmyntina Bitcoin, en kerfið snýst um að hallda utan um dreifða færsluskrá (distributed ledger technology). Með dreifðri færsluskrá eru allar færslur sem eiga sér stað skráðar og aðgengilegar öllum sem tengdir eru kerfinu.
Blockchain er viðhaldið af dreifðu neti margra tölva og krefst ekki aðkomu þriðja aðila. Færslur þurfa að vera samþykktar af öllum notendum kerfisins til þess að ganga í gegn, en þannig er upplýsingaflæði milli aðila tryggt.
Borsa Italiana mun notast við tæknilausnina HyperLedger Fabric, sem er tegund Blockchain-tækninnar. Lausnin var nýlega gefin út af Hyperledger, félagi sem sérhæfir sig í frjálsum hugbúnaði, en meðlimir þess eru meðal annars Linux Foundation, IBM og LSEG.
Löngum hefur verið misræmi í upplýsingasöfnun um hluthafa smárra og meðalstórra fyrirtækja, en sum fyrirtæki geyma slíkar upplýsingar aðeins á pappírsskjölum. Samkvæmt LSEG myndi Blockchain-tækni leiða til aukins gagnsæis um eignarhald þessara fyrirtækja auk þess sem það myndi auðvelda samskipti milli fyrirtækjanna og hluthafa þeirra.
Framtíð greiðslumiðlunar
Margar fjármálastofnanir hafa litið hýrum augum til Blockchain-tækninnar. Til dæmist minntist Seðlabankinn á dreifða færsluskrá sem mögulegan grundvöll fyrir rafvæðingu reiðufjár nýjasta tölublaði Fjármálainnviða. Svíar hafa einnig tekið upp Blockchain-tæknina, en þessa stundina er slíkt kerfi í þróun hjá þeim til þess að skrá eignarhald á jörðum.
Samkvæmt heimildum Reuters eru einnig leiddar líkur að því að orkuiðnaðurinn muni skipta yfir í Blockchain-viðskipti innan árs.