Bresk stjórnvöld hafa óskað eftir því að fulltrúar Evrópusambandsins í Brexit-viðræðunum svokölluðu, um það hvernig Bretland mun slíta tengslin við ESB, nálgist viðræðurnar með opnari huga en áður.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneyti Bretlands.
Samningaviðræðurnar um Brexit hófust aftur í dag með fundi Brexit-ráðherrans David Davis fyrir Bretland og Michel Barnier fyrir Evrópusambandið. Viðræðurnar í þessari lotu samninganna verða að öllum líkindum tæknilegs eðlis þar sem grunnurinn að næstu samningalotu í september verður lagður.
„Nú verða báðir aðilar samninganna að vera sveigjanlegir og tilbúnir til málamiðlana í þeim þáttum sem ágreiningur ríkir um,“ segir í tilkynningunni. „Eins og ESB hefur sagt þá tifar klukkan og hvorugur aðilinn má draga lappirnar.“
Vilja áframhaldandi aðgang að sameiginlegum markaði
Verkamannaflokkurinn í Bretlandi hefur boðað miklar breytingar á opinberri afstöðu flokksins til Brexit og segist nú styðja áframhaldandi aðgang að sameiginlegum markaði ESB og að áfram verði opið fyrir flæði fólks um landamærin. Frá þessu er greint í frétt á vef breska dagblaðsins The Guardian.
Þessi stefnubreyting skilur afstöðu Verkamannaflokksins frá Íhaldsflokknum í fyrsta sinn síðan þjóðaratkvæðagreiðslan um áframhaldandi veru Bretlands í ESB sumarið 2016.
Bretland mun ganga úr ESB 19. mars 2019 og eftir það vill Verkamannaflokkurinn að Bretar hafi aðgang að þessum tveimur stoðum Evrópusambandsins af fjórum. Það yrði í reynd ekki ósvipaður aðgangur og Ísland hefur gagnvart ESB í gegnum EES-samninginn. Gegn því að fá aðgang að gæðum Evrópusamvinnunnar þarf Ísland að innleiða lög og reglugerðir sem samþykktar eru í Brussel.
Verkamannaflokkurinn vill með þessari stefnubreytingu verða sá flokkur sem styður „mjúka útgöngu“ (það sem kallað hefur verið soft Brexit á ensku). Ef flokkurinn færi með stjórn Bretlands yrði Bretland áfram aðili að sameiginlegum markaði ESB og að tollabandalaginu, í takmarkaðan tíma; Hugsanlega yrði sá tími tvö til fjögur ár eftir 2019.
Þá mundi flokkurinn vilja halda því opnu að Bretland yrði áfram aðili að sameiginlega markaðinum að þessu umbreytingartímabili loknu, ef það tækist að sannfæra ESB um að samþykkja sérstakan samning um innflytjendur og reglur um frjálst flæði fólks.