Vinstri hreyfingin – grænt framboð nýtur nú lang mests stuðnings fyrir Alþingiskosningarnar 28. október næstkomandi, með 27 prósent stuðning þegar þrjár vikur eru til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn tapar enn fylgi og er nú með 22,1 prósent í kosningaspánni.
Vinstri græn hafa bætt miklu fylgi við sig síðan ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, féll 15. september síðastliðinn. Í Alþingiskosningunum í fyrra fengu Vinstri græn 15,9 prósent atkvæða.
Ólíklegt er að nýjustu vendingar á sviði stjórnmálanna í gær hafi haft áhrif á nýjustu könnunina sem reiknast í kosningaspánni. Það er könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem birt var í morgun, laugardag.
Samfylkingin mælist nú þriðja stærsta framboðið í kosningaspánni með 10,4 prósent stuðning. Píratar eru nú með 10 prósent stuðning og eru orðið fjórða stærsta framboðið. Píratar hafa verið næstir á eftir Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum í kosningaspánni síðan kosið var síðast til Alþingis. Þar áður hafði fylgi við Pírata náð meira en 40 prósent í upphafi árs 2016.
Kosningaspáin er unnin af Baldri Héðinssyni í samstarfi við Kjarnann í aðdraganda kosninga á Íslandi. Lesa má um aðferðafræði og framkvæmd kosningaspárinnar á kosningaspárvef Kjarnans eða á kosningaspa.is.
Flokkur fólksins og Miðflokkurinn mælast með nógu mikið fylgi til þess að gera sig gildandi á Alþingi, ef niðurstöður kosningaspárinnar eru í takt við niðurstöður kosninganna. Flokkur fólksins mælist með 8,4 prósent fylgi og Miðflokkurinn með 8,3 prósent.
Framsóknarflokkurinn tapar fylgi á milli kosningaspáa og er nú með 6,5 prósent. Framsóknarflokkurinn hefur fallið úr rúmlega 10 prósent stuðningi eftir fall ríkisstjórnarinnar. Það verður að teljast áhyggjuefni fyrir forystu flokksins en ljóst er að klofningur innan flokksins og tilkoma framboðs Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur hoggið stórt skarð í Framsóknarflokkinn.
Ríkisstjórnarflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð mælast með enn minna fylgi en þeir gerðu síðast. Viðreisn hefur stuðning 3,5 prósent kjósenda og Björt framtíð þrjú prósent.
Hægt er að skoða nýjustu kosningaspána í kosningamiðstöð Kjarnans. Þar má einnig lesa í líkur á því að framboðin geti myndað saman meirihluta á þingi, miðað við niðurstöður kosningaspárinnar.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar kosningaspánni sem fjallað er um hér 7. október eru eftirfarandi:
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 2. – 6. október (vægi 38,5%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis 2-3. okt (vægi 22,2%)
- Skoðanakönnun MMR 26. – 28. september (vægi 19,7%)
- Þjóðarpúls Gallup 15. – 28. september (vægi 16,6%)