Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson ætlar, fyrir hönd umbjóðanda síns, að kæra niðurstöðu Landsréttar um hæfi Arnfríðar Einarsdóttur dómara til Hæstaréttar.
Í samtali við Kjarnann segir Vilhjálmur að eftir að hann hafi farið yfir niðurstöðuna með umbjóðanda sínum fyrr í dag sé það ákvörðun hans að hann vilji kæra. Vilhjálmur segist hafa fulla trú á Hæstarétti Íslands þegar hann er spurður hvort hann sé vongóður um að niðurstaðan þar verði með öðrum hætti en í dag. „Ef ég væri ekki þeirrar skoðunar að viðkomandi dómara bæri að víkja sæti með vísan til þeirra réttarreglna sem að um hæfi dómara gilda þá hefði krafan aldrei verið lögð fram.“ Hann segist treysta Hæstarétti til að skila niðurstöðu sem sé í samræmi við lög og að viðkomandi dómara verði gert að víkja sæti í málinu.
Aðspurður um hvort umbjóðandi hans hyggist fara enn lengra með málið komist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu segir Vilhjálmur að það verði bara að koma í ljós. „Þetta er niðurstaða Landsréttar. Ég ætla nú ekki að segja að hún komi á óvart. Það er nú bara þannig að enginn er dómari í eigin sök en ég ber fullt traust til Hæstaréttar og vona að þessari eyðimerkurferð íslensks réttarkerfis ljúki þar,“ segir Vilhjálmur.
Skipun Arnfríðar verði ekki haggað
Vilhjálmur gerði þá kröfu að Arnfríður viki sæti þar sem hún var einn þeirra fjögurra dómara sem skipaðir voru í réttinn af Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra þrátt fyrir að vera ekki meðal þeirra sem hæfnisnefnd hafði talist hæfasta til að gegna embættinu.
Landsréttur hafnaði kröfu Vilhjálms fyrr í dag og sagði að skipuninni yrði ekki haggað. Alþingi hafi samþykkt skipunina og á þeim grundvelli hafi forseti Íslands skipað hana. Þá liggi fyrir að Arnfríður uppfylli og uppfyllti við skipunina almenn hæfisskilyrði samkvæmt lögum um dómstóla. Sem skipuðum dómara beri henni að rækja þann starfa sem embættinu fylgir í samræmi við stjórnarskránna. Þá njóti hún sjálfstæðis í embættisathöfnum sínum, meðal annars gagnvart ráðherra sem gerði tillögu um skipan hennar í embættið.
Réttur til að fá úrlausn fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli
Í málflutningi fyrir Landsrétti þar sem tekist var á um hæfi Arnfríðar kom fram í máli Vilhjálms að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu, í bótamálum tveggja þeirra umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt, þar sem þeim voru dæmdar miskabætur vegna brota á málsmeðferðinni við skipan dómaranna fimmtán, að málsmeðferðin við mat á hæfni Arnfríðar hafi ekki verið í samræmi við lög og gengið gegn lögum um dómstóla og stjórnsýlulög og verið í andstöðu við meginreglu um að ávallt skuli skipa hæfasta umsækjanda. „Af öllu framansögðu er ljóst að Arnfríður var ekki skipuð í embætti í samræmi við lög eins og er fortakslaust skilyrði 59. greinar stjórnarskrár og 2. málsliðar 1. málsgreinar. 6. greinar mannréttindasáttmála Evrópu,“ sagði Vilhjálmur.
Hann sagði kröfu sína byggjast á því að þeir annmarkar sem verið hefðu á skipan Arnfríðar brjóti á rétti skjólstæðings síns til að fá úrlausn sinna mála fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Hann vakti einnig athygli á því að þeir fimmtán dómarar sem skipa landsrétt kjósi forseta réttarins, sem síðan úthlutar málum og ákveður hver sé dómsformaður hverju sinni. Því mætti ákærði, skjólstæðingur hans, hafa réttamætar efasemdir um að réttindi hans væru tryggð. „Að þessu sögðu er ásýnd dómsins eins og hann er nú skipaður í máli ákærða ekki sú að dómurinn sé sjálfstæður eða nægilega óháður.“