Kröfu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar um að Arnfríður Einarsdóttir Landsréttardómari víki sæti vegna vanhæfis, á þeim grundvelli að hún hafi ekki verið skipuð með réttum hætti í embætti, hefur verið vísað frá Hæstarétti.
Þetta staðfestir Vilhjálmur í samtali við Kjarnann. Dómur þessa efnis var kveðinn upp í réttinum í dag og hefur verið tilkynnt lögmönnum aðila, það er að segja Vilhjálmi og Jóni H.B. Snorrasyni fyrir hönd ákæruvaldsins. Niðurstaðan mun birtast á heimasíðu Hæstaréttar síðar í dag.
Í niðustöðunni segir að engu því hafi verið haldið fram í kröfunni fyrir vanhæfinu sem valdið gæti því eftir 6. grein sakamálalaga, heldur hafi röksemdirnar snúist að því að ekki hafi verið farið að lögum við skipun dómarans. „Hefði hann klædd álitaefnið sem hann í raun leitaði úrlausnar um ranglega í búning kröfu um að dómarinn viki sæti í málinu,“ segir í samandreginni niðurstöðu Hæstaréttar.
Úrskurður Landsréttar hafi þannig ekki snúið að réttu lagi að ágreiningi um það efni og gæti hann af þeim sökum ekki átt undir kæruheimild til Hæstaréttar um hvort Landsréttardómari víki sæti í málinu.
Vilhjálmur krafðist þess fyrir hönd skjólstæðings síns í sakamáli að Arnfríður viki sæti þegar málið var flutt fyrir Landsrétti. Dómurinn úrskurðaði að Arnfríður væri ekki vanhæf og skaut Vilhjálmur þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar sem nú hefur vísað málinu frá.
Í lögum um meðferð sakamála kemur fram að Hæstiréttur geti kveðið upp dóm um frávísun máls frá réttinum vegna galla á málatilbúnaði þar fyrir dómi án þess að málflutningur fari fram.
Líkast til leiðir þessi niðurstaða það af sér að til að geta gert kröfu um að Landsréttardómari víki vegna vanhæfis þurfi efnisdómur fyrir Landsrétti fyrst að ganga og síðar sé málinu áfrýjað til Hæstaréttar þar sem annað hvort ómerkingar eða sýknu er krafist á þeim grundvelli að dómurinn hafi ekki verið rétt skipaður.