Tíu blaðamenn voru á meðal þeirra 31 sem létust af völdum sjálfsmorðsprengju árása í Kabúl í Afganistan á mánudag. Fyrsta sprengjan sprakk um klukkan átta að afgönskum tíma og þegar ljósmyndarar, blaðamenn og aðrir flykktust að svæðinu sprengdi annar maður sig upp í kjölfarið. Seinni árásarmaðurinn hafði dulbúið sig sem ljósmyndara til að komast inn á svæðið.
Sprengingarnar áttu sér stað í hverfinu Shashdarak en bandaríska sendiráðið og skrifstofur afganskra yfirvalda eru staðsettar þar. Ljósmyndari AFP fréttastofunnar, Shah Marai var einn af þeim sem lést í sprengjutilræðinu en hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst voðaverkunum á hendur sér.
VIDEO: A selection of photos by AFP chief photographer in Kabul Shah Marai, who was killed when two suicide blasts ripped through the city on Monday pic.twitter.com/XSh2G3qPHj
— AFP news agency (@AFP) April 30, 2018
Önnur árás á blaðamann í Afganistan átti sér stað á mánudag en þá var blaðamaðurinn Ahmad Shah skotinn til bana í Khost héraðinu. Shah var 29 ára og vann hjá BBC í Afganistan. Ekki er vitað hverjir réðu Shah bana, en ISIS hafa ekki lýst morðinu á hendur sér.
Afganistan er í 118. sæti á lista Reporters Without Borders (RWB), eða Fjölmiðlar án landamæra, yfir fjölmiðla frelsi. Árið 2017 létust í það minnsta 15 blaðamenn og aðstoðarfólk þeirra í skipulögðum árásum á blaðamenn þar í landi.
Á síðu Reporters Without Borders segir að Talíbanar og ISIS-liðar hafi unnið markvisst að því að skapa fjölmiðla svarthol á nokkrum stöðum í landinu með skipulögðum árásum á blaða- og fjölmiðlafólk. Einnig hafa Talíbanar lagt háa skatta á fjölmiðla þar í landi. Afgönsk yfirvöld eiga erfitt með að samþykkja sjálfstæði fjölmiðla og hafa lögreglan og herinn verið viðriðin árásir á blaðamenn. Ástandið hefur haft bein áhrif á konur í blaðamannastéttinni en margar hverjar hafa gefist upp vegna hótana og árása.
Samkvæmt Reporters Without Borders hafa fjórtán blaðamenn, fjórir borgara blaðamenn (citizen journalists) og tveir aðstoðarmenn blaðamanna verið drepnir það sem af er ári. Með árásunum á mánudag er sú tala upp í 30 í heildina. Á árinu 2017 létust 55 blaðamenn, sjö borgara blaðamenn og tólf aðstoðarmenn blaðamanna. Flestir létust í Afganistan og Sýrlandi, en í Sýrlandi létust þrettán.
.