Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spyr hvort sú krafa um að Harpa skili hagnaði sé ekki misráðin, í færslu á Facebook-síðu sinni í morgun. Hann veltir því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að ríki og borg styrki þessa starfsemi svo að hún geti verið þjóð og húsi til sóma, fólki greidd sómasamleg laun, hvort sem það starfi við að þjónusta gesti eða við uppsetningu tónleika og annarra viðburða.
Mikil óánægja hefur verið á meðal starfsmanna Hörpu með það að laun forstjórans, Svanhildar Konráðsdóttur, hafi verið hækkuð um 20 prósent í fyrra. Meðal annars sögðu 20 þjónustufulltrúar sem störfuðu hjá fyrirtækinu upp störfum í gær eftir fund með forstjóranum. Stutt er síðan að starfsfólk Hörpu tók á sig launalækkun vegna erfiðleika í rekstri.
Guðmundur Andri segir jafnframt að launahækkanir ríkisforstjóra að undanförnu hafi verið afar misráðnar og ranglátar, hvað svo sem þeir heita og hvers kyns sem þeir eru. Hann telur að gott sé hjá Svanhildi að fara fram á leiðréttingu á þessum mistökum en hún greindi frá því í stöðuuppfærslu á Facebook í gær að hún hefði óskað eftir því að laun hennar verði lækkuð afturvirkt í samræmi við úrskurð kjararáðs frá því í febrúar 2017.
Reksturinn hefur þurft árleg viðbótarframlög
Ekki hefur verið hægt að reka Hörpu nema fyrir árleg viðbótarframlög frá eigendum til rekstursins. Tap Hörpu frá byrjun árs 2011 og til síðustu áramóta hefur numið rúmlega 3,4 milljörðum króna. Tap af rekstri Hörpu í fyrra, áður en árlegt fjárframlag ríkis og borgar er reiknað með, var tæplega 1,6 milljarður króna. Þegar búið er að bæta fjárframlagi eigendanna við var tapið hins vegar 243,3 milljónir króna á árinu 2017.
Framlag íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar, eigenda Hörpu, er tvenns konar. Annars vegar greiða eigendurnir upphæð vegna fjármögnunar á fasteigninni sjálfri og hins vegar vegna framlags til rekstrar Hörpu. Frá árinu 2011 hefur framlag vegna fjármögnunar kostnaðar við byggingu Hörpu numið rúmlega sex milljörðum króna. Þær greiðslur munu standa yfir til ársins 2046 og aukast í krónum talið ár frá ári.
Til viðbótar ákváðu eigendur Hörpu að greiða rekstrarframlag vegna hennar frá byrjun árs 2013 og út árið 2016. Samtals nam framlag eigendanna til rekstrar Hörpu á því tímabili um 700 milljónum króna.
Uppsafnað tap 11,5 milljarðar króna
Í maí 2017 var ákveðið að gera viðauka við samning Hörpu við eigendur sína sem í fólst að þeir leggðu félaginu til 450 milljónir króna í viðbótarframlag á síðasta ári. Þetta framlag tryggði þó reksturinn einungis út árið 2017. Í ársreikningi Hörpu kemur fram að í janúar 2018 hafi verið ákveðið að leggja Hörpu til 400 milljónir króna til viðbótar á árinu 2018 til að tryggja lausafjárstöðu félagsins út það ár.
Taprekstur síðustu ára hefur leitt til þess að eiginfjárstaða Hörpu er nú orðin neikvæð um 47,5 milljónir króna. Hún var jákvæð um 196 milljónir króna í lok árs 2016.
Ef rekstrartap Hörpu, framlög ríkis og Reykjavíkurborgar vegna skulda hennar og rekstrarframlögin sem ríkið hefur reitt af hendi eru lögð saman kemur í ljós að uppsafnað tap Hörpu frá byrjun árs 2011 og til loka árs 2017 er um 11,5 milljarðar króna. Til viðbótar munu að minnsta kosti bætast við um 1,5 milljarður króna vegna framlags ríkis og borgar í ár.