Ríkisútvarpið var í dag sýknað af kröfu Adolfs Inga Erlingssonar fyrrverandi íþróttafréttamanns um skaða- og miskabætur vegna meints eineltis sem hann varð fyrir af hálfu yfirmanns síns sem og vegna þess sem hann taldi vera ólögmæta uppsögn.
Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að RÚV hefði brotið á Adolfi og gert stofnuninni að greiða honum 2,2 milljónir í bætur og málskostnað. Hæstiréttur hefur því snúið þeirri niðurstöðu við.
Adolf Inga var sagt upp störfum hjá Ríkisútvarpinu árið 2013 og hóf þá að undirbúa málsókn á hendur stofnuninni vegna eineltis sem hann taldi sig hafa mátt sæta.
Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að hvorki tilhögun lýsinga íþróttakappleikja né breytingar á starfstilhögun Adolfs gætu hafa falið í sér einelti í skilningi gildandi reglugerðar. Þá taldi rétturinn að málefnaleg sjónarmið hefðu getað búið að baki þeim skilningi þáverandi íþróttafréttastjóra RÚV að henni hefði ekki verið heimilt að semja við Adolf um greiðslu vaktaálags við nýjar starfsaðstæður, og slíkt gæti ekki verið ámælisverð og ótilhlýðileg háttsemi. Að auki gætu þeir ágallar sem voru á meðferð kvörtunar Adolfs um einelti ekki einir og sér hafa falið í sér einelti né hefði Adolf sýnt fram á að ágallar á meðferð kvörtunar hans hefðu haft í för með sér fjártjón fyrir hann. Þeir yrðu ekki heldur taldir svo alvarlegir eða þess eðlis að miskabótaábyrgð yrði felld á RÚV vegna þeirra.
Adolf hefði verið sagt upp vegna aðhaldsaðgerða í rekstri RÚV og hefði uppsögn hans verið liður í hópuppsögn af því tilefni. Því hafi ekki verið sýnt fram á annað en að þær forsendur hefðu verið málefnalegar eins og rekstri stofnunarinnar hefði verið háttað, en RÚV hefði skýrt nægilega forsendur uppsagnarinnar.
RÚV var því sýknað af kröfum Adolfs Inga.