Fjöldi hælisumsókna til Evrópusambandsríkja árið 2017 minnkaði um 44% frá því árinu áður og nam tæpum 730,000. Á sama tíma minnkaði fjöldi umsókna einnig á Íslandi, þó aðeins um 15%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu hælisumsóknaskrifstofu Evrópusambandsins, sem birtist í gær.
Kjarninn hefur áður fjallað um fjölda hælisleitenda á Íslandi, en hann minnkaði einnig töluvert á milli 2016 og 2017. Þá hafa enn færri flóttamenn sótt um hæli hér á landi það sem af er ári en gerðu það á sama tímabili í fyrra. Á öllu síðasta ári sóttu 1.096 manns um hæli á Íslandi samanborið við 1.293 umsóknir sem fengust á árinu áður, en það jafngildir 15 prósenta fækkun.
Samkvæmt frétt Guardian um skýrsluna var fækkunin meiri yfir allt Evrópusambandið, en í fyrra sóttu 728,470 manns um alþjóðlega vernd í sambandsríkjum þess miðað við 1,3 milljónir á árinu. Þar með nam fækkunin alls 44% prósent yfir allt sambandið milli ára.
Sem áður eru algengustu þjóðerni hælisleitenda Sýrland, Írak og Afganistan, en til samans telja umsóknir frá þeim löndum 29% allra umsókna. Líkt og á Íslandi hefur fækkunin haldið áfram það sem af er ári, þrátt fyrir að fjöldi hælisumsókna sé enn töluvert meiri en fyrir svokölluðu flóttamannabylgjuna árið 2014 og 2015.
Þýskaland tekur enn á móti mestum fjölda hælisleitenda, eða um 222,560 umsóknum árið 2017. Á hæla þess koma svo Ítalía, Frakkland og Grikkland. Hins vegar eru margar þeirra fastar í kerfinu, alls eru 954,100 umsóknir sem bíða afgreiðslu í öllu sambandinu. Einnig er mikill munur á afgreiðslu hælisumsókna milli landa, en Sviss veitir 90% umsækjenda sinna hæli á meðan hlutfallið í Tékklandi er einungis 12%. Hlutfallið á Íslandi er enn lægra, en þar fá einn af hverjum tíu umsækjendum hæli.