Sjö rannsóknarmenn Karolinska stofnunarinnar eru fundnir sekir vegna misferlis í starfi í greinarskrifum um plastbarkamálið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stofnuninni fyrr í dag.
Greinarnar sem um ræðir voru sex talsins og birtust í tímaritunum The Lancet, Biomaterials, Journal of Biomedical Materials Research og Thoracic Surgery Clinics. Ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini var meðal aðalhöfunda greinanna, en ríkissaksóknari felldi niður ákæru gegn honum fyrir manndráp af gáleysi síðasta haust.
Í tilkynningunni segir að ákvörðunin hafi verið tekin vegna raðar alvarlegra rangfærslna og misvísandi upplýsinga í ritrýndu fræðigreinunum. Þá verða sjö höfundar fundnir sekir, en til viðbótar fái 31 höfundur ávítanir án þess að gerast sekir um misferli. Aðrir fimm meðhöfundar greinanna teljast ekki hafa brotið af sér á neinn hátt og fá því ekki ávítanir af neinu tagi. Samhliða þessu skipar Karolinska stofnunin að greinarnar sex verði allar teknar úr birtingu.
Uppljóstrari fundinn sekur
Meðal þeirra sem fundnir voru sekir var einn af uppljóstrurum málsins sem tilkynnti Macchiarini vegna gruns um misferlis í rannsóknum árið 2014. Ole Petter Ottersen, rektor Karolinska stofnunarinnar, segir í tilkynningunni að þrátt fyrir uppljóstrunina hafi rannsóknarmaðurinn átt virka aðkomu að málinu og geti ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð.
Forstjóri Landspítala og rektor Háskóla Íslands skipuðu óháða rannsóknarnefnd sem rannsakaði aðkomu stofnananna og starfsmanna þeirra að málinu. Í skýrslu nefndarinnar eru fjallað um aðkomu Tómasar Guðbjartssonar, prófessors við læknadeild HÍ og yfirlæknis á Landspítalanum, en hann var meðal meðhöfunda greinarinnar sem birtist í The Lancet árið 2011, ásamt Óskari Einarssyni, sérfræðingi í lungnalækningum við Landspítala. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ,tók undir niðurstöður skýrslunnar og segir vinnubrögð Tómasar hafi verið aðfinnsluverð en muni ekki beita neinum viðurlögum.
Kjarninn hefur áður fjallað um íslensku skýrsluna, en þar virðist mörgum þáttum í aðkomu íslenskra stofnanna að málinu hafa verið ábótavant.