England mætir Króatíu í dag seinni undanúrslitaleik heimsmeistaramótsins. Frakkar tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum í gær með 1-0 sigri á Belgíu.
Leikurinn er sá þriðji sem England spilar í undanúrslitum á heimsmeistaramóti, en þjóðin hefur einu sinni unnið, árið 1966. Þetta er í annað sinn sem Króatar komast í undanúrslitin, fyrra skiptið var árið 1998, fyrir sléttum tuttugu árum, þegar þeir töpuðu 2-1 fyrir Frökkum sem urðu á endanum heimsmeistarar. Gera má ráð fyrir að þá langi gjarnan að mæta Frökkunum í úrslitunum til að hefna þeirra harma.
Leikurinn í dag er sá áttundi á milli þjóðanna en sá fyrsti á heimsmeistaramóti. England hefur unnið fjóra leiki, Króatía tvo og einu sinni hafa liðin gert jafntefli. Liðin hafa mæst einu sinni á stórmóti. Það var á EM 2004 og vann England leikinn með fjórum mörkum gegn tveimur.
Krótara hafa skorað níu mörk liðsins á mótinu til þessa. Aðeins Luka Modrić hefur skorað meira en eitt mark en hjá Englendingum er Harry Kane markahæstur, með sex mörk og er sem stendur markakóngur mótsins. Enginn enskur leikmaður hefur skorað meira á heimsmeistaramóti en Gary Lineker skoraði einnig sex mörk árið 1986. Lineker var markahæstur það árið og fékk að launum gullskóinn. Átta af 11 mörkum Englands á mótinu hafa komið eftir föst leikatriði (þrjú víti, fjórar hornspyrnur og ein aukaspyrna).
Króatar voru eins og allir vita með Íslendingum í riðli. Þeir spiluðu vel í riðlinum en hafa ekki sýnt eins sterka frammistöðu í útsláttarkeppninni. Englendingar aftur á móti hafa vaxið eftir því sem liðið hefur á mótið. Stemmningin í Englandi er gríðarleg um þessar mundir og virðist jákvæðari í garð liðsins en verið hefur á síðustu stórmótum.
Leikurinn er sýndur í beinni útsendingu á RÚV klukkan sex í kvöld.