Skandinavíska flugfélagið SAS aflýsti 25 flugferðum um helgina og hefur ákveðið að aflýsta 40 til viðbótar í vikunni, að eigin sögn vegna verkfalla, flugmannaskorts og lélegs skipulags. Þetta kemur fyrst fram í fréttum á ýmsum skandinavískum fréttamiðlum.
Sænski ríkismiðillinn SVT fjallaði einnig um málið, en samkvæmt henni hefur Facebook-síða flugfélagsins fyllst af reiðum athugasemdum frá farþegum aflýstu fluganna. Þar segjast farþegarnir ekki hafa fengið nein úrræði eða útskýringar á aflýsingunum, en þær hafi allar verið tilkynntar með stuttum fyrirvara.
Í viðtali við Dagens Næringsliv segir rekstrarstjóri SAS, Lars Sandahl Sørensen, lélegt skipulag og skort á flugmönnum vera aðalástæður aflýsinganna. Einnig segir hann flugfélagið hafa verið „allt of metnaðarfullt“ í sumar.
Tonje Sund, fjölmiðlafulltrúi félagsins er sama sinnis: „Í stuttu máli sagt erum við á miðjum háannatíma á sama tíma sem við verðum fyrir mörgum vandamálum. Þetta er blanda af tænkilegum vandamálum, flugmannaskorts í Evrópu, verkfalls flugumferðarstjóra og keðjuáhrif vegna aflýsinga annarra flugferða í okkar neti,“ segir Tonje í samtali við Dagens Nyheter.
Jacob Pedersen, greiningaraðili fluggeirans hjá Sydbank segir einnig í sömu frétt að þessir þættir hafa áhrif á önnur flugfélög í Evrópu. „Þegar um ræðir aflýstar flugferðir, þá er það meiri spurning um hvað sé í gangi í Evrópu. Verkföll flugumferðarstjóra í Frakklandi ásamt skorti á flugmönnum í Grikklandi og Þýskalandi hefur leitt til kvartana meðal allra flugfélaga í Evrópu.“
Kjarninn hefur áður fjallað um verkföll flugumferðarstjóra í Evrópu í ár, en þau eru talin hafa valdið seinkunum eða aflýsingum á flugum fyrir milljónir farþega um alla álfuna. Forstjóri Ryanair, Michael O'Leary, kallaði þá „verstu skúrkana“ í kjarabaráttu starfsfólks í geiranum og hagsmunasamtök flugfélaga hafa einnig sent frá sér tilkynningu um alla Evrópu þar sem lýst er yfir áhyggjum af því fjárhagstjóni sem verkföllin kunna að hafa í för með sér