Hlutafé í Wow air var aukið um rúman helming á öðrum ársfjórðungi. Upplýsingar um hlutafjáraukninguna komu fram hjá fyrirtækjaskrá síðastliðinn föstudag, en Túristi.is greindi fyrst frá henni.
Í frétt Túrista kemur fram að Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, hafi lagt eignarhlut sinn í Cargo Express ehf. inn í WOW air á öðrum ársfjórðungi. Auk þess hefði hann breytt kröfum sínum á hendur félagsins í eigið fé, en verðmæti þessara breytinga muni nema yfir tveimur milljörðum króna.
Kjarninn hefur áður fjallað um rekstur WOW air, en flugfélagið tapaði yfir 2,3 milljörðum íslenskra króna á síðasta ári. Eiginfjárhlutfall félagsins var 10,9 prósent í ársbyrjun, sem er nokkru lægra en 42 prósent eiginfjárhlutfall Icelandair á sama tíma.
Á síðustu tveimur ársfjórðungum hefur þó rekstur Icelandair þyngst töluvert, en Kjarninn greindi frá 6,4 milljarða króna tapi flugfélagsins á fyrri árshelmingi í ár. Samhliða því hefur eiginfjárhlutfallið lækkað um tíu prósentustig niður í 32 prósent á sama tíma.
Vangaveltur hafa verið uppi um rekstur WOW air á sama tíma, en flugfélagið varði sig ekki gegn olíuverðhækkunum sem áttu sér stað á þessu ári líkt og Icelandair. Því gæti WOW air hafa fundið meira fyrir ytri markaðsaðstæðum en Icelandair, en rekstrarniðurstaða fyrrnefnda félagsins frá fyrri árshelmingi hefur ekki enn verið birt. Hlutafjáraukning WOW væri þó, að öllu óbreyttu, til þess að hækka eiginfjárhlutfall félagsins.