Íslenska ríkið hefur fengið frest til 20. september næstkomandi til að skila svörum sínum við spurningum Mannréttindadómstóls Evrópu vegna Landsréttarmálsins svokallaða samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Mannréttindadómstóllinn ákvað í júní að taka kæru vegna Landsréttarmálsins til meðferðar og fór fram á svör við ákveðnum spurningum frá íslenska ríkinu.
Meðal annars var spurt að því hvernig það samrýmist ákvæði mannréttindasáttmála, að skipun dómara hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi skuli greiða atkvæði um hvert og eitt dómaraefni fyrir sig, í stað þess að greiða atkvæði um tillögu ráðherrans í heild eins og gert var. Einnig er spurt um niðurstöðu Hæstaréttar frá í maí í samhengi við fyrri dóm Hæstaréttar um brot ráðherrans á lögum við skipunina. Mannréttindadómstólinn vill þannig svör við því, hvernig ólögleg skipan dómara geti haldist í hendur við þá niðurstöðu að sömu dómarar sitji löglega í réttinum.
Íslenska ríkið fékk frest til 18. ágúst til að svara erindi dómstólsins. Sá frestur hefur nú verið lengdur fram í september.
Málið er að fá afar skjóta málsmeðferð fyrir Mannréttindadómstólnum, enda þess eðlis að það getur bæði verið fordæmisgefandi og mögulega haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir réttarkerfi einstakra ríkja eða álfunnar allrar.