Þegar forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hringir í vini sína í einum af snallsímunum sínum þá eru kínverskir og rússneskir njósnarar að hlusta. Þeir hlusta til að geta betur skilið hvernig forsetinn hugsar og hvernig best sé að nýta sér þær upplýsingar sem þeir heyra til að hafa áhrif á ákvörðunartöku forsetans. Frá þessu er greint í umfjöllun New York Times í gær.
Aðstoðarmenn Trumps hafa ítrekað varað hann við að farsímarnir hans séu ekki öruggir og að njósnarar séu sífellt að hlusta. Innstu aðstoðarmenn hans reyna stöðugt að fá forsetann til að nota landlínurnar í Hvíta húsinu en samkvæmt heimildarmönnum þá vill Trump frekar nota farsímana sína til að hringja í vini sína.
Donald Trump er víst með þrjá iPhone síma, tvo sem er búið að öryggissvæða en einn persónulega iphone. En það er víst mjög auðveld að hlera símtöl sem hringd eru frá venjulegum farsímum. Fréttir hafa verið færðar af því að bandarísk stjórnvöld séu að hlera síma stjórnmálamanna, sem dæmi má nefna þegar í ljós kom að hleraður var sími Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.
Aðstoðarmenn Trumps eru því mjög meðvitaðir um hætturnar sem fylgja því að nota óörugga síma. Trump á að skipta um síma á 30 daga fresti en hann hefur víst streist á móti. Samkvæmt heimildum New York Times þá segjast embættismenn í Hvíta húsinu aðeins getað vonað að Trump sé ekki að gaspra um trúnaðarmál og öryggismál í snjallasímann. En ljóst er á meðan Trump notar sinn persónulega iPhone þá eru Kínverjar og Rússar að hlusta.
Nota upplýsingarnar til að reyna hafa áhrif á ákvörðunartöku forsetans
Kínverskir njósnarar nýta upplýsingarnar sem þeir heyra í hlerunum sínum til að vita hvaða mönnum Trump treystir og hvernig rök forsetinn hlustar helst á. Þær upplýsingar eru síðan notaðar af kínverskum viðskiptamógúlum til að hafa áhrif á þá menn sem Trump treystir. Reynt er að sannfæra vini Trumps um að ákveðin stefnumótun, sem er í hag Kínverja, sé sniðugasta leiðin með von um að þau rök endi í eyra Trumps.
Kínverskir embættismenn hafa víst notað þessa aðferð í mörg ár, reynt er að hafa áhrif á bandaríska leiðtoga með því að skapa sér óformlegt net af áberandi viðskiptamönnum og fræðimönnum sem eru svo fengnir til kynna ákveðnir hugmyndir og stefnumótun, sem eru Kínverjum í hag, til áhrifavalda í Hvíta húsinu. Nú eru Kínverjar hins vegar með beina tengingu við síma forsetans og eiga því ennþá auðveldra með komast að því hvaða rök virka til að sannfæra forsetann.
Þeir vinir Trumps sem kínverskir njósnarar eru til dæmis búnir að taka eftir eru Stephen A. Schwarsman sem tók stóran þátt í fyrsta fundi Xi Jinping, forseta Kína, og Donalds Trump. Scharsman er nú þegar hlynntur farsæls viðskiptasambands á milli Kína og Bandaríkjanna og þykir því afar góður kandídat fyrir Kínverja. Tekið er fram að ekki er haldið að þessir vinir Trumps séu meðvitaðir um áætlanir Kínverja. Hvort þessar aðgerðir Kínverja virki síðan sem skildi er svo annað mál.