Alls voru 43.726 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi í byrjun nóvember og fjölgaði þeim um 5.914 manns frá 1. desember síðastliðnum eða um 15,6 prósent. Þetta kemur fram í frétt Þjóðskrár Íslands í dag. Til þess að setja þessa tölu í samhengi þá fjölgaði fólki búsettu hér á landi um 7.892 og voru erlendir ríkisborgarar því tæplega 67 prósent af þeirri fjölgun.
Jafnframt segir í fréttinni að flestir erlendu ríkisborgaranna séu frá Póllandi eða 19.025 talsins og 4.038 einstaklingar séu með litháískt ríkisfang. Pólskum ríkisborgurum fjölgaði um rúmlega tvö þúsund frá 1. desember síðastliðnum og litháískum ríkisborgurum um 669. Rúmenskum ríkisborgurum fjölgaði um 453 á tímabilinu eða úr 1.010 manns í 1.463 sem gerir 44,8 prósent fjölgun á 11 mánaða tímabili.
Í frétt Kjarnans frá því í byrjun september síðastliðins kemur fram að innflytjendur sem starfa á Íslandi hafi verið 38.765 talsins um mitt þetta ár, eða 18,6 prósent starfandi fólks. Það þýðir að fleiri innflytjendur eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði en fjöldi þeirra sem búa í Kópavogi, næst fjölmennasta sveitarfélags landsins, þar sem 35.966 manns bjuggu í upphafi þessa árs.
Fjöldi þeirra er nú rúmlega fjórum sinnum það sem hann var í upphafi árs 2005 og tvöfaldur það sem hann var í byrjun árs 2015, fyrir þremur og hálfu ári.
Frá byrjun árs 2017 hefur innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði fjölgað um 11.544, rúmlega íbúafjölda Mosfellsbæjar, og á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 fjölgaði þeim um 5.310, rúmlega 700 fleiri en búa á Seltjarnarnesi.