Samtökin European Disability Forum (EDF), sem eru regnhlífasamtök aðildarfélaga fatlaðs fólks, sendu frá sér yfirlýsingu þann 4. desember síðastliðinn eftir að Klaustursmálið svokallaða komst í erlenda fjölmiðla. Í henni kemur fram að þeim sé algjörlega misboðið og þau gáttuð á hinum hryllilegu ummælum sem íslenskir þingmenn viðhöfðu gegn kvenkyns samstarfsfólki sínu og gegn Freyju Haraldsdóttur, baráttumanneskju fatlaðra og fyrrverandi varaþingkonu.
Sérfræðingar sem Kjarninn hefur talað við eru á einu máli að Freyja Haraldsdóttir njóti mikillar virðingar á alþjóðavettvangi vegna starfa hennar og hafa viðbrögð við drykkjufundi þingmannanna sex á Klaustur bar ekki látið á sér standa. Á hljóðupptöku heyrast þingmennirnir gera grín að Freyju, sem þjáist af sjaldgæfum beinasjúkdómi. Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, kallaði hana „Freyju eyju“ og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, gerði grín af því að tveir hinna mannanna við borðið hefðu sérstakan áhuga á Freyju og nafngreindri þingkonu Samfylkingarinnar. Einhver úr hópnum hermdi í kjölfarið eftir sel.
„Þingmennirnir sem hlut eiga að máli ættu að gera sér grein fyrir því hversu óásættanleg hegðun þeirra er og segja af sér. Hatursorðræða af þessu tagi er óafsakanleg. Hálfgerðu afsökunarbeiðnirnar sem bárust frá þeim eru óafsakanlegar. Stjórnmálamenn eiga að vera fyrirmyndir. Þeir voru andstæðan við það. Þessi frétt undirstrikar einnig algenga tilhneigingu: fötluðum konum er sérstaklega hætt við því að verða fyrir hatursorðræðu, mismunun og ofbeldi,“ segir í yfirlýsingu EDF.
EDF bendir á að saga Freyju endurtaki sig í sífellu í Evrópu í lífum óteljandi kvenna. „Við hvetjum alla til þess að láta til sín taka í hvert sinn sem aðstæður sem þessar koma upp: til að binda enda á svona hegðun eru skýr stefnumál nauðsynleg, en einnig sterkar aðgerðir, eins og að láta í sér heyra í daglegu lífi.“
Virðingar og virkrar hlustunar er þörf
Tveir erlendir sérfræðingar í mannréttindum fatlaðs fólks, þau Gerard Quinn og Anna Lawson, hafa fylgst með atburðarásinni en þau skrifuðu opið bréf til íslensku þjóðarinnar og birtu á Kjarnanum í gær. Í því segja þau að ef til vill geti þessi uppákoma á Íslandi leitt af sér eitthvað gott. Það sé ekki nóg að biðjast afsökunar og láta eins og ekkert hafi í skorist! Virðingar og virkrar hlustunar sé þörf.
„Við viljum trúa því að Ísland geti gert eitthvað sem myndi gera Bush stoltan, vakið öfund Evrópu og rétt við hlut Freyju. Það er lágmark að stjórnvöld hlýði á eigin þegna og stofni sjálfstæða og óháða mannréttindastofnun strax. Slík stofnun kemur ekki í staðinn fyrir stjórnmál eða stjórnmálafólk. En minnir okkur á að stjórnmálin snúast – þegar best lætur – um almannaheill en ekki fordóma eða sérhagsmuni. Slík mannréttindastofnun myndi geta fært hluti til betri vegar þegar eitthvað fer úrskeiðis eins og virðist hafa gerst hér og myndi tengja Ísland alþjóðlegri umræðu um réttlæti í heiminum. Það er hið rétta í stöðunni. Það myndi gera Freyju aftur stolta af því að vera Íslendingur,“ segja þau.
Hatursorðræða gegn fötluðum
Umfjöllun um málið var birt á vef BBC síðastliðinn mánudag. Í henni segir að stór hluti Íslendinga hafi kallað eftir afsögn sexmenninganna. Fjallað er um ummæli þingmannanna um Freyju, sem og stöðuuppfrærslu hennar á Facebook, þar sem hún lýsti því að afsökunarbeiðni þar sem viðkomandi reynir að útskýra og ljúga um hvað hafi átt sér stað sé ekki raunveruleg afsökunarbeiðni.
Enn fremur talar blaðamaður BBC við formann Þroskahjálpar, Bryndísi Snæbjörnsdóttur, sem sagði að um hefði verið að ræða hatursorðræðu gegn fötluðum. „Það var hræðilegt að þurfa að hlusta á upptökurnar þar sem þingmennirnir leika eftir dýrahljóð og gera grín að fatlaðri konu sem hefur barist svo ötullega fyrir réttindum fatlaðra,“ sagði Bryndís í samtali við BBC.
Jafnframt er fjallað um þátttöku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og þingmanns, og skýringu hans um að hljóðin sem líkjast áttu sel, þegar nafn Freyju Haraldsdóttur bar á góma, hafi komið frá stól inni á staðnum. Einnig er fortíð hans í tengslum við Panamaskjölin rifjuð upp og afsökunarbeiðnin sem Miðflokkurinn sendi frá sér þar sem sagði að þingmenn hygðust læra af málinu og að umræðurnar væru óafsakanlegar.
Frábiður sér frekari símtöl þar sem talað er niður til hennar
Freyja sagði í fyrrnefndri stöðuuppfærslu á Facebook að niðrandi og meiðandi ummæli þingmanna á drykkjufundi í þarsíðustu viku, um hana og fjölmarga aðra nafgreinda einstaklinga, væru kerfisbundið hatur. „Það beinist harðast að konum. Hinsegin fólki. Fötluðu fólki. Karlmönnum sem einhvernveginn passa ekki inn í ríkjandi hugmyndir um (skaðlega) karlmennsku. Það er hvorki tilviljun né einsdæmi að akkúrat þessir hópar séu viðfang orðaníðs fólks með mikil forréttindi. Það er alltumlykjandi - alltaf.“
Hún sagði í stöðuuppfærslu sinni að fyrstu viðbrögð hennar við hatursorðræðu þingmannanna hefði verið að verja hvorki krafti né orðum í hana og halda áfram með vinnudaginn sinn. „En ég hélt auðvitað ekkert áfram með daginn minn að neinu ráði - þetta hefur tekið sinn toll líkt og allt ofbeldi gerir.“
Freyja skrifaði grein sem birtist á vefsíðu Kjarnans síðasta sunnudagskvöld þar sem hún greinir frá samskiptum sínum við Sigmund Davíð en hann hringdi í hana fyrr um daginn. „Ég frábið mér frekari símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til mín og reynir að útskýra fyrir mér hvað eru fötlunarfordómar og hvað ekki. Eina eðlilega símtalið í stöðunni væri að biðjast einlæglega afsökunar, án nokkurra útskýringa eða málalenginga, og segjast í ljósi gjörða sinna ætla að axla ábyrgð á ofbeldinu sem við vorum beittar og segja af sér,“ sagði hún í greininni.