Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segist ekki geta tjáð sig efnislega um ásakanir Sigrúnar Helgu Lund, prófessors í líftölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, sem sagði upp starfi sínu vegna dræmra viðbragða stjórnenda skólans við kvörtunum hennar vegna erfiðra samskipta og kynferðislegs háttalags af völdum yfirmanns hennar í starfsmannaviðtali.
Sigrún greindi frá málinu í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun. Yfirmaðurinn, Sigurður Yngi Kristinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hafnaði ásökunum hennar í yfirlýsingu fyrr í dag.
Jón Atli segir í yfirlýsinu sinni að Háskóli Íslands leggi ríka áherslu á að til staðar séu úrræði fyrir starfsmenn og nemendur sem telja á sér brotið.
„Háskólinn starfrækir m.a. sérstaka siðanefnd, fagráð um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, og viðbragðsteymi vegna eineltis og annars ofbeldis.
Rektor getur ekki tjáð sig efnislega um málefni einstakra starfsmanna eða ákvarðanir siðanefndar, sem eru trúnaðarmál. Rétt er að taka fram að Háskóli Íslands hefur, á undanförnum misserum, lagt áherslu á að bæta enn frekar ferla og úrræði til að bregðast við kvörtunum og tilkynningum um ofbeldi og áreitni af hvaða tagi sem er, enda verður slíkt aldrei liðið innan Háskóla Íslands.“