Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að tilmæli Fjármálaeftirlitsins um stjórnir lífeyrissjóða staðfesti það sem VR hafi alla tíð haldið fram, að það sé ekkert sem banni þeim að skipta út fulltrúum í stjórn lífeyrissjóða. Ragnar Þór segist jafnframt reikna með því að ný stjórn verði kjörin við fyrsta tækifæri. Þetta kemur fram í stöðufærslu Ragnars á Facebook.
Í dreifibréfi Fjármálaeftirlitsins sem Kjarninn fjallaði um í gær kemur fram að Fjármálaeftirlitið telur afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sjóða vega að sjálfstæði stjórna þeirra og að afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sjóða, sem byggi á ósætti tilnefningaraðila við einstakar ákvarðanir stjórnar, geti talist tilraun til beinnar íhlutunar í stjórnun lífeyrissjóða, sem með óbeinum hætti færir ákvörðunarvaldið frá stjórn lífeyrissjóða. „Slíkt vegur að sjálfstæði stjórnar og gengur í berhögg við almenn sjónarmið um góða stjórnarhætti,“ segir í dreifibréfinu.Jafnframt beinir Fjármálaeftirlitið því til stjórna lífeyrissjóða að taka samþykktir sínar til skoðunar með það að leiðarljósi að skýra hvort og þá við hvaða aðstæður sé mögulegt að afturkalla umboð stjórnarmanna sem kjörnir/tilnefndir hafa verið.
Ný stjórn kölluð saman við fyrsta tækifæri
Ragnar Þór segir í stöðufærslu sinni að dreifibréf FME feli í sér tilmæli um að setja þurfi skýrari reglur um afturköllun umboða og með hvaða hætti það verði gert í framtíðinni og með því „staðfestist það sem við höfum alla tíð haldið fram að það er ekkert sem bannar okkur og skipta út fulltrúum okkar og vísum þannig í reglur okkar um fulltrúaráð VR í Lífeyrissjóði verslunarmanna, sem öll stjórn VR samþykkti á sínum tíma að meðtöldum fráfarandi stjórnarformanni LIVE.“
Í stöðufærslunni greinir Ragnar Þór jafnframt frá því að á fundi VR með lífeyrissjóðnum í byrjun árs hafi það verið sameiginlegur skilningur beggja aðila að reglur um afturköllun umboða yrðu settar af skipunaraðilum, sem í tilfelli VR er fulltrúaráð VR í lífeyrissjóðnum.
„Forsvarsmenn sjóðsins og VR voru því sammála um að setja EKKI slíkar reglur í samþykktir sjóðsins heldur væru þær settar af skipunaraðilum. Þessi sjónarmið og staðfesting á því að þessi fundur var haldin með forsvarsmönnum sjóðsins í byrjun árs hafa ekki fengið áheyrn FME en VR var aldrei beðið um greinargerð eða frekari útskýringar á okkar sjónarmiðum í málinu sem hlýtur að teljast frekar sérstakt af eftirlitsstofnun sem predikar hæst um fagleg vinnubrögð,“ segir í stöðufærslunni.
Þá segir Ragnar að VR muni virða ábendingar FME um að fylgja góðum stjórnarháttum en að það sé „gott að fá það staðfest af FME að engar reglur eða lög voru brotin og við í fullum rétti. Við höfum nú þegar farið ítarlega yfir málið með lögmönnum félagsins sem taka af allan vafa í þessu máli.“ Hann segist jafnframt reikna með að ný stjórn verði kölluð saman við fyrsta tækifæri.
Í dag sendi FME frá sér dreifibréf til lífeyrissjóðanna sem felur í sér tilmæli um það að setja þurfi skýrari reglur um...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Wednesday, July 3, 2019