Njósnað var um Julian Assange, stofnanda Wikileaks, á meðan hann dvaldi í sendiráði Ekvador í London. Njósnað var um Assange allan sólarhringinn frá desember 2017 til mars 2018. Þetta kemur fram í frétt El País.
Samkvæmt gögnunum sem blaðamennirnir hafa undir höndum var skjölum, myndböndum og hljóðbrotum af Assange safnað af spænska öryggisfyrirtækinu Undercover Global S. L.. Fyrirtækið sá um öryggisgæslu við sendiráðið á árunum 2012 til 2018.
Samkvæmt fréttinni var nánar fylgst með Assange eftir að Lenin Moreno varð forseti Ekvador í maí 2017. Moreno veitti einmitt breskum yfirvöldum aðgengi að Assange svo þau gætu handtekið hann.
Assange reyndi að hindra njósnir
Öryggisfyrirtækið skrifaði daglega skýrslu um Assange, hvað hann hafði gert þann daginn og jafnvel í hvaða skapi hann hafi verið. Í skýrslunum var skrifað um viðbrögð Assange við dóminum gegn Manning og var Assange samkvæmt þeim afar stressaður og uppspenntur í kjölfar fregna af dóminum. Einnig er skrifað um fund Assange með Pamelu Anderson. Þau hafi deilt upplýsingum með því að skrifa miða og notað tæki sem hafi brenglað raddir þeirra, að því er kemur fram í fréttinni.
Ljóst er að Assange hafi verið afar var um sig og reynt að hindra að hægt væri að njósna um hann, þar sem hann hafi kveikt á tækinu sem brenglaði raddir hans og gesta hans. Hins vegar hafi tækið ekki komið í veg fyrir að öryggisfyrirtækið hafi getað hlustað á allar samræður hans, samkvæmt frétt El País. Jafnframt hafi fyrirtækið getað þysjað inn á miða hans.