Greta Thunberg ávarpaði í morgun franska þingið þrátt fyrir að ýmsir hægrisinnaðir franskir þingmenn hafi hvatt til þess að ávarpið væri sniðgengið, að því er kemur fram í frétt Le Monde. 162 franskir umhverfisverndunarsinnaðir þingmenn buðu henni að tala á þinginu. Heimsókn Gretu í franska þingið hefur vakið deilur á meðal þingmanna þar í landi. Hægrisinnaðir þingmenn sniðgengu ávarp hennar og hvöttu aðra þingmenn til að gera slíkt hið sama.
Greta sagði að þingmönnunum bæri ekki skylda til þess að hlusta á hana og önnur börn þar sem þau væri „hvort eð er bara börn.“ Hins vegar bæri þingmönnum skylda til að hlusta á það sem vísindin segja og biðlaði til þingmannanna að vera í liði með vísindum.
Kalla Gretu heimsenda spákona í stuttum hnébuxum
Þingmennirnir kölluðu hana „heimsendis gúrú“ og að hún væri „barnalega andstaða við framfarir.“ Þetta kemur fram í frétt Le Monde. Hin sextán ára Greta hefur farið sem stormsveipur um heiminn og meðal annars verið tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels.
Til að mynda skrifaði Julien Aubert, þingmaður lýðveldissinna, í færslu á Twitter að hann virði hugsanafrelsi. „Ekki reikna með því að ég fagni spákonu í stuttum hnébuxum. Hræðsluverðlaun Nóbels,“ bætti hann þó við og vísaði þar til þess að hún hefði verið tilnefnd til friðarverðlaunanna. Guillaume Larrivé, þingmaður í sama flokki og Aubert, hvatti einnig til að sniðgöngu á meðan Greta ávarpaði þingið.
Helsta ógn olíufyrirtækja
Greta Thunberg og umhverfisaktívistar eru helsta ógn Samtaka olíu-útflutningsfyrirtækja (OPEC) að mati Mohammed Barkindo, aðalframkvæmdastjóra samtakanna. Greta hefur sagt þetta vera stærsta hrós sem hún hafi hlotið, að því er kemur fram í frétt The Guardian.
Íslensk börn hafa á föstudögum í vetur skrópað í skólann og mætt á Austurvöll til að krefja íslensk stjórnvöld um aðgerðir í loftslagsmálum. Þau krefjast þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5 prósent af þjóðarframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Þar verði atvinnulífið einnig að axla ábyrgð og til þess verði ákveðin viðhorfsbreyting að eiga sér stað.