Stjórn VR samþykkti í gær tillögu um að skipa nýja stjórnarmenn í lífeyrissjóð verzlunarmanna til bráðabirgða. Þá var einnig samþykkt að hefja þegar í stað faglegt umsóknarferli framtíðarstjórnarmanna félagsins hjá lífeyrissjóðnum.
Í frétt frá VR segir að tillagan hafi veirð samþykkt með 14 atkvæðum gegn einu. Nýir aðalmenn VR í stjórn sjóðsins verða Guðrún Johnsen, Bjarni Þór Sigurðsson, Helga Ingólfsdóttir og Stefán Sveinbjörnsson. Heimildir Kjarnans herma að Guðrún verði næsti stjórnarformaður lífeyrissjóðsins.
Sjóðurinn á einnig stóran hlut í félögum á borð við HB Granda, Reginn, Icelandair og Eimskip. Þá er Lífeyrissjóður verzlunarmanna stærsti einstaki hluthafinn í Kviku banka með 9,49 prósent hlut.
VR tilnefnir helming stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna en samtök ýmissa atvinnurekenda hinn helminginn. Sem stendur er stjórnarformaður sjóðsins, Ólafur Reimar Gunnarsson, úr röðum þeirra sem VR tilnefnir. Hann er einn þeirra fjögurra sem VR hefur reynt að víkja úr stjórn lífeyrissjóðsins.
Trúnaðarbrestur vegna hækkunar á vöxtum
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í júní síðastliðnum var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi. VR hefur lýst því yfir að þessi aðgerð félagsins sé fullkomlega lögleg.
Hann sagði jafnframt líklega væri það eina leiðin til raunverulegra breytinga að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna kjósi stjórnir þeirra beint. Þannig væri hægt að aftengja atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna sem hann sagði að væri í ákveðinni mótsögn við sjálfa sig sem fjármagnseiganda.
FME gerir athugasemdir
Greint var frá því í fréttum í byrjun júlí að Fjármálaeftirlitið teldi afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sjóða vega að sjálfstæði stjórna þeirra. Fjármálaeftirlitið beindi því með dreifibréfi til stjórna lífeyrissjóða að taka samþykktir sínar til skoðunar með það að leiðarljósi að skýra hvort og þá við hvaða aðstæður sé mögulegt að afturkalla umboð stjórnarmanna sem kjörnir/tilnefndir hafa verið.
Auk þess kom fram í tilkynningu frá Fjármálaefnirlitinu í byrjun júlí að samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skuli meðal annars kveða á um hvernig vali stjórnarmanna lífeyrissjóðsins og kjörtímabili þeirra skuli háttað. Hins vegar væri ekki frekar kveðið á um hvernig að tilnefningu eða kjöri skuli staðið eða hvort afturköllun sé heimil.
Enn fremur taldi Fjármálaeftirlitið að val stjórnarmanna færi eftir ákvæðum í samþykktum lífeyrissjóða sem væru þó „almennt hljóðar um hvort og þá við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna verði afturkallað. Óskýrar samþykktir hvað þetta varðar gera ferli við val og mögulega afturköllun á umboði stjórnarmanna ógagnsætt.“
VR sætti sig ekki við þetta heldur stendi Fjármálaeftirlitinu í lok júlí síðastliðins fyrir að viðurkenna ekki lögmæti ákvörðunar fulltrúaráðs VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
Fyrrverandi varaformaður stjórnar Arion banka
Kjarninn hefur heimildir fyrir því að vilji sé til þess á meðal forsvarsmanna VR að Guðrún Johnsen verði næsti stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Hún var um árabil varaformaður stjórnar Arion banka en var láti hætta í stjórn hans síðla árs 2017.
Hún greiddi meðal annars atkvæði í stjórninni gegn umdeildri sölu á hlut bankans í Bakkavör í nóvember 2015 og lagði það síðan til á fundi stjórnar Arion banka 14. nóvember 2018 að gerð yrði könnun á söluferli eignarhlutarins. Sú tillaga var felld. Í minniblaði sem Bankasýsla ríkisins skrifaði Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna þeirrar sölu, sem stofnunin mat að ríkissjóður hafi tapað 2,6 milljörðum króna á, kom fram að degi eftir að Guðrún lagði fram tillöguna hafi henni verið tjáð að „breytingar væru fyrirhugaðar á stjórn bankans og [hennar] aðkomu væri ekki óskað“.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt að salan á Bakkavör gæti verið eitt stærsta fjársvikamál Íslandssögunnar og kallað efftir því að opinber rannsókn fari fram á því hvort að lífeyrissjóðirnir sem áttu hlut í fyrirtækinu hafi verið blekktir.
Hægt er að lesa ítarlega úttekt Kjarnans á baráttunni um Bakkavör hér.
Fréttin verður uppfærð.