Embætti ríkislögreglustjóra keypti ráðgjöf og þjónustu af verktökum fyrir 3.296.672.166 króna á árunum 2010 til 2018. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Árlegur verktakakostnaður embættisins hefur aukist til muna frá árinu 2010, það ár var kostnaðurinn rúmar 250 milljónir en átta árum síðar var hann um 439 milljónir. Hvaða þjónustu var keypt og af hverjum kemur jafnframt fram í svari ráðherra og má sjá hér.
Vilhjálmur spurði einnig hverjir voru skráðir stjórnarmenn lögaðila sem þjónustan var keypt af á hverjum tíma en í svari ráðherra segir að slík úttekt yrði það umfangsmikil að ekki væri hægt að svara þeim hluta fyrirspurnarinnar í stuttu máli.
Mál ríkislögreglustjóra til skoðunar
Mál Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, er til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu. Í september lýstu átta af níu lögreglustjórum í landinu yfir vantrausti gagnvart Haraldi og vilja þeir hann burt úr embætti. Samkvæmt lögreglstjórunum var kornið sem fyllti mælinn viðtal sem Haraldur veitti Morgunblaðinu, þar sem hann sagði að meðal annars megi rekja óánægju innan lögreglunnar til þess að hann væri að taka á spillingu innan lögreglunnar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra málaflokksins, hefur gefið sér nokkrar vikur til að finna lausn á þessu máli. Ein lausn væri að ráðast í skipulagsbreytingar innan lögreglunnar og færa til dæmis starfsemi ríkislögreglustjóra undir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Enn sem komið er mun Haraldur hins vegar sitja áfram í starfi.