„Skattrannsóknarstjóra hafa nýlega borist gögn frá namibískum yfirvöldum. Ekkert frekar er hægt að upplýsa um það á þessu stigi, þ. á m. að hverjum þau beinast.“
Þetta segir í svari Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra við fyrirspurn Kjarnans um hvort að embættinu hafi borist gögn sem tengjast meintum skattsvikum íslensks fyrirtækis í Namibíu. Bryndis segist hins vegar ekki geta tjáð sig um einstök mál.
Í fréttaskýringarþættinum Kveik sem sýndur var í gærkvöldi kom meðal annars fram að vísbendingar væru um að greiðslur upp á að minnsta kosti 1,4 milljarða króna frá Samherja til hóps sem inniheldur meðal annars tvo ráðherra í Namibíu, séu mútugreiðslur og að viðskipti fyrirtækisins í Afríkulandinu séu skýr dæmi um spillingu.
Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Þar kom einnig fram að rökstuddur grunur sé um stórfellda skattasniðgöngu Samherja við að koma ágóðanum af þeim viðskiptum sem fyrirtækið stundaði þar undan og til skattaskjóla. Þá liggur fyrir að norski bankinn DNB, sem er að hluta til í eigu norska ríkisins, stöðvaði viðskipti við félög tengd Samherja á Kýpur og Marshall-eyjum vegna þess að reglur um varnir gegn peningaþvætti voru ekki uppfyllt. Þau mál eru til skoðunar hjá norsku efnahagsbrotadeildinni og deildar embættis héraðssaksóknara þar í landi, samkvæmt Stundinni.
Kjarninn greindi frá því í gærkvöldi að Jóhannes Stefánsson, sem var verkefnastjóri Samherja í Namibíu fram til ársins 2016, og steig fram í Kveik-þætti kvöldsins, hefði rætt við starfsmenn héraðssaksóknara í gær.
Jóhannes viðurkenndi í Kveiks-þættinum að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í Namibíu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu, hefði fengið lagalega stöðu uppljóstrara og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.