Sóttvarnarlæknir ræður nú frá ónauðsynlegum ferðum til Kína, Suður-Kóreu, Írans, Ítalíu og skíðasvæðisins Ischgl í Austurríki. Skíðasvæðið Ischgl í Austurríki hefur þar með bæst í hóp skilgreindra áhættusvæða vegna COVID-19 veirunnar.
Í gær höfðu 26 Íslendingar greinst með veiruna. Þeir höfðu allir verið á ferðalagi um Ítalíu og Austurríki. Í dag hafa svo átta tilfelli bæst við og því samtals staðfest smit hjá 34 hér á landi.
Allir þeir sem hafa verið á skíðasvæðinu Ischgl frá 29. febrúar eru nú beðnir um að fara í 14 daga sóttkví og tilkynna það til sinnar heilsugæslu. Ef viðkomandi finnur fyrir flensulíkum einkennum á að hafa samband við Læknavaktina í síma 1700.
„Allir þeir sem verið hafa á svæðinu frá sama tíma og eru auk þess með einkenni eiga að hafa samband í síma 1700 og fara eftir leiðbeiningum þaðan um að fara í sýnatöku. Þeir sem hafa einkenni eiga að nota grímur og gæta allrar mögulegrar smitvarúðar,“ segir í tilkynningu.
Í frétt RÚV í morgun kom fram að von sé á 74 Íslendingum með vél Icelandair frá Veróna á laugardag. Þeir þurfa allir að fara í tveggja vikna sóttkví. Mikill viðbúnaður verður vegna vélarinnar; flugfreyjur um borð verða menntaðir hjúkrunarfræðingar, engin þjónustu verður í boði heldur fá farþegar nesti fyrir flugið.
Tvær áhafnir Icelandair eru í sóttkví eftir flug heim frá München og Veróna um síðastliðna helgi, átta flugfreyjur og fjórir flugmenn. Þetta kemur fram í frétt mbl.is.
Einkenni veirunnar
Nýja kórónaveiran (COVID-19) hagar sér í sumu eins og inflúensa, einkenni eru svipuð og smitleiðir áþekkar. Einkenni eru helst hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta og svo framvegis.
Veiran getur valdið alvarlegum veikindum hjá þeim sem veikir eru fyrir lýsir það sér með sýkingum í neðri öndunarfærum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.-8. degi veikinda.
Útbreiðslan í dag
Tæplega 96 þúsund manns í um sjötíu löndum hafa greinst með veiruna. Staðfest dauðsföll af völdum sýkingarinnar eru 3.286. Rúmlega 53 þúsund manns hafa náð sér af veikindum sínum.
Veiran er enn útbreiddust í Kína og þar hafa um 3.000 látist af hennar völdum. Á Ítalíu hafa yfir 100 látist og sömu sögu er að segja frá Íran.
Ítölsk stjórnvöld hafa ákveðið að loka öllum skólum, einnig háskólum, frá og með deginum í dag. Skólarnir verða lokaðir í að minnsta kosti tíu daga.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur enn ekki lýst yfir heimsfaraldri vegna nýju kórónuveirunnar. Til þess að lýst sé yfir heimsfaraldri þurfa ákveðin viðmið að vera til staðar, m.a. ákveðin útbreiðsla. Framkvæmdastjóri WHO segir að staðan sé stöðugt endurmetin.
Nú er reyndar talið að veiran hafi stökkbreyst við upphaf útbreiðslunnar í tvær megintegundir. Virðist önnur skæðari en hin að því er fram kemur í rannsókn kínverskra vísindamanna.