Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er ekki með kórónuveiruna. Þetta kom fram í minnisblaði sem læknir Hvíta hússins birti í morgun.
Trump staðfesti á blaðamannafundi í gær að hann hefði undirgengist prófanir til að kanna hvort hann væri með COVID-19 og að niðurstöðu væri að vænta á næstu tveimur sólarhringum. Ástæðan er sú að fjölmiðlafulltrúi forseta Brasilíu, sem var viðstaddur fund hans með Trump á laugardag fyrir viku, hefur greinst með COVID-19.
Nú liggur sú niðurstaða fyrir. Í minnisblaði læknisins, Sean P. Conley, segir að Trump sé með öllu einkennalaus.
Trump forðaðist að svara því beint í vikunni hvort hann myndi láta prófa sig til að kanna hvort hann væri smitaður. Hann gaf það svo til kynna á blaðamannafundi á föstudagskvöld, þar sem hann lýsti yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum, að hann myndi reyna að koma því að að láta prófa sig.
Gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða til að reyna að koma í veg fyrir að forsetinn smitist. Meðal annars er hiti allra sem koma í návígi við hann mældur. Trump sjálfur hefur hins vegar átt erfitt með að tileinka sér ýmsar varúðarráðstafanir eins og að hætta að taka í hendurnar á fólki eða nota sama hljóðnema og aðrir.
Smitum fjölgar og dreifast víða
Í morgun höfðu 2.759 greinst smitaðir í Bandaríkjunum og 59 látist vegna veirunnar. Smitaðir hafa greinst í Puerto Rico, Washington D.C. og 49 ríkjum Bandaríkjanna.
Á blaðamannafundi sem Trump og Pence héldu í gær kom fram að allir Bandaríkjamenn myndu geta látið skima fyrir veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum án þess að greiða fyrir það.
Stefnt er að því að setja upp skimunarstöðvar í stærstu dagvöruverslunarkeðjum Bandaríkjanna og víðar.
Á sama fundi greindi Mike Pence frá því að ferðabannið til Bandaríkjanna, sem tók gildi á miðnætti á laugardag, myndi frá og með miðnætti á mánudag líka ná yfir Bretland og Írland. Ríkin tvö voru upphaflega undanskilin frá banninu þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í síðustu viku.
Ferðabannið, sem á að standa yfir í 30 daga, virkar þannig að öllum íbúum landa sem tilheyra Schengen-svæðinu, þar á meðal Ísland og þorri Evrópu, verður meinað að koma til Bandaríkjanna á tímabilinu. Bandarískir ríkisborgarar og aðrir sem eru með fasta búsetu í Bandaríkjunum munu fá að ferðast ef þeir vilja en samkvæmt fréttatilkynningu sem birt var í kjölfar yfirlýsingar Trump um ferðabannið á vef heimavarnarráðuneytisins mun þeim bandarísku farþegum sem dvalið hafa á Schengen-svæðinu hleypt inn í landið í gegnum valda flugvelli þar sem sérstakar ráðstafanir verða gerðar til að skima fyrir smiti.