Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélags Vestmannaeyja, segir að hvöss gagnrýni á Alþingi gagnvart þeim útgerðum sem stefndu íslenska ríkinu og kröfðust 10,2 milljarða króna vegna úthlutunar á makrílkvóta hafi ekki haft nein áhrif á ákvörðun Ísfélagsins að hætta við stefnu sína. Hann segir að Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins, hafi þegar verið búin að beina þeirri ósk til stjórnar félagsins að hætta við málshöfðunina og að stjórnin hafi samþykkt það á þriðjudag. Sama dag hafi hann greint einum ráðherra í ríkisstjórninni frá þeirri ákvörðun.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Fimm þeirra sjö útgerða sem stefnt höfðu íslenska ríkinu í málinu tilkynntu síðdegis í gær að þær hefði fallið frá málsókninni.
Fyrirtækin sem um ræðir eru Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes. Sjávarútvegsfyrirtækin Huginn og Vinnslustöðin skrifuðu ekki undir tilkynninguna.
Hörð gagnrýni á Alþingi
Kjarninn greindi frá því um helgina að útgerðirnar sjö væru að krefjast 10,2 milljarða króna úr ríkissjóði í málinu auk hæstu mögulegu vaxta. Langhæsta krafan var frá Ísfélagi Vestmannaeyja, sem krafðist tæplega 3,9 milljarða króna auk vaxta úr ríkissjóði.
Eskja krafðist þess að fá rúmlega tvo milljarða króna í bætur, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes vildu rúman milljarð króna og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum krefst þess að fá tæpan milljarð króna auk vaxta. Huginn vill fá 839 milljónir króna og Gjögur, sem er næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar (Samherji er stærsti eigandinn) krafðist 364 milljóna króna. Í stefnu Gjögurs var einnig krafist bóta vegna kostnaðar við að leigja aflaheimildir á árunum 2015 til 2018.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti munnlega skýrslu um áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við þeim áhrifum á Alþingi á þriðjudag. Þar gerði hún kröfu útgerðanna að umtalsefni. „Ég vil segja það að hér að ég hef verið gríðarlega ánægð með þá samstöðu sem maður hefur skynjað í samfélaginu í því að takast á við veiruna. Bæði fyrirtæki og fólk hafa þar sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð. Þetta er dýrmætt. En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“
Katrín sagði þetta ekki góða leið til að efla samstöðu í samfélaginu. „Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum þetta ferðalag sem við erum stödd í. Þó ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli þá finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi það að draga þessar kröfur á til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra.“
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra bætti við á sama vettvangi að ef svo ólíklega færi að ríkið myndi tapa málinu þá væri það einfalt mál í hans huga að reikningurinn vegna þess yrði ekki sendur á skattgreiðendur. „Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt,“ sagði hann.
„Nú verða allir að leggja lóð á vogaskálarnar“
Í tilkynningu útgerðanna fimm sem hættu við málsókn í gær sagði að áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar muni hafa víðtæk áhrif á ríkissjóð og allt íslenskt samfélag. „Fyrir endann á því verður ekki enn séð, því miður. Það er hins vegar á svona stundum sem styrkleikar íslensks samfélags koma vel í ljós. Víðtæk samstaða og baráttuhugur hafa einkennt samfélagið síðustu vikur og mánuði. Nú verða allir að leggja lóð á vogarskálar. Af þessum sökum hafa undirrituð fimm sjávarútvegsfyrirtæki tekið þá ákvörðun að falla frá kröfum á hendur íslenska ríkinu vegna ágreinings um úthlutun aflaheimilda í makríl.“
Tilkynningin var send út af Sigurbirni Magnússyni lögmanni, sem er einnig stjórnarformaður Árvakurs og faðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Ísfélagið og tengd félög eru stærstu einstöku eigendur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.