Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, sem hefur stefnt íslenska ríkinu til greiðslu rúmlega eins milljarðs króna auk hæstu mögulegu vaxta, ætlar að halda skaðabótakröfu sinni til streitu.
Þetta sagði Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Hann sagðist enn fremur vera afskaplega feginn að vera ekki í hópi þeirra fimm útgerða sem ákveðið hafa að hætta við skaðabótakröfur sínar gagnvart ríkinu vegna úthlutunar á makrílkvóta á árunum 2011 til 2018 „Það er engin launung á því að Ísfélagsmenn sögðu okkur ekki satt þegar þeir kynntu hvað þeir ætluðu að gera og ég ætla ekki að fara nánar út í það. Ég hefði ekki viljað fylgja þeim í þeim sporum.“
Þar vísar Sigurgeir Brynjar í það að fimm útgerðir af þeim sjö útgerðum sem stefndu ríkinu ákváðu í síðustu viku að falla frá málsókn sinni, en samtals vildu fyrirtækin sjö fá 10,2 milljarðar króna auk vaxta úr ríkissjóði. Fyrirtækin sem um ræðir eru Ísfélags Vestmannaeyja, Eskja, Gjögur, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes. Sjávarútvegsfyrirtækin Huginn og Vinnslustöðin eru nú einu fyrirtækin sem hafa ekki dregið kröfur sínar til baka.
Reikningurinn yrði ekki sendur skattgreiðendum
Aðdragandi málsins var sá að Kjarninn greindi frá því að kröfur útgerðanna sjö væru samtals 10,2 milljarðar króna auk vaxta fyrir viku síðan.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerði líka kröfur útgerðanna að umtalsefni við sama tilefni. „Ég vil segja það að hér að ég hef verið gríðarlega ánægð með þá samstöðu sem maður hefur skynjað í samfélaginu í því að takast á við veiruna. Bæði fyrirtæki og fólk hafa þar sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð. Þetta er dýrmætt.
En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“
Katrín sagði þetta ekki góða leið til að efla samstöðu í samfélaginu. „Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum þetta ferðalag sem við erum stödd í. Þó ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli þá finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi það að draga þessar kröfur á til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra.“
Daginn eftir greindu fimm af sjö útgerðum frá því að þær væru hættar við.
Kjarninn hefur enn ekki fengið stefnurnar
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélags Vestmannaeyja, sagði í Morgunblaðinu á fimmtudag að hvöss gagnrýni á Alþingi gagnvart útgerðunum hefði ekki haft nein áhrif á ákvörðun Ísfélagsins að hætta við stefnu sína. Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins, hafi þegar verið búin að beina þeirri ósk til stjórnar félagsins að hætta við málshöfðunina og að stjórnin hefði samþykkt það á þriðjudag. Sama dag hafi hann greint einum ráðherra í ríkisstjórninni frá þeirri ákvörðun.
Kjarninn hefur reynt að upplýsingar um stefnur sjávarútvegsfyrirtækjanna frá hinu opinbera frá síðasta sumri. Í desember, eftir fimm mánaða ferli, var þeirri beiðni synjað. Kjarninn kærði þá niðurstöðu til úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem komst að þeirri niðurstöðu að hagsmunir almennings af aðgangi að upplýsingum um málatilbúnað einkaaðila á hendur íslenska ríkinu vegi þyngra en hagsmunir sjávarútvegsfyrirtækjanna af því að þær fari leynt.
Kjarninn fór fram á það síðdegis 2. apríl, við embætti ríkislögmanns, að fá stefnurnar afhentar. Þrátt fyrir ítrekanir á þeirri beiðni hafa þær enn ekki fengist 17 dögum síðar. Ríkislögmaður hefur hins vegar greint Kjarnanum frá því að hann muni ekki fara fram á að réttaráhrifum verði frestað og því liggur fyrir að stefnurnar verða afhentar.