Margir virðast orðnir óþreyjufullir að vita nákvæmlega hvernig skóla- og íþróttastarf barna verður eftir hinn margumtalaða dag, fjórða maí. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi heilbrigðisráðherra í dag minnisblað með tillögum að afléttingu takmarkana hvað þetta varðar. Hann vildi ekki ræða þær tillögur sérstaklega á upplýsingafundi almannavarna í dag enda væri það heilbrigðisráðherra að ákveða útfærsluna endanlega og birta auglýsingu þar um.
Fréttamaður Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar spurði engu að síður út í einn anga málsins enda hefur ákveðins misskilnings gætt varðandi fyrirhugaða útfærslu.
Hann beindi orðum sínum til Þórólfs er hann spurði: Nú hafa almannavarnir sagt að skólahald geti farið fram með eðlilegum hætti á meðan menntamálaráðherra segir að tveggja metra reglan verði ennþá í gildi. Er mögulegt að skólahald geti verið með eðlilegum hætti ef það er tveggja metra regla?
Þórólfur (snýr sér brosandi að Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni): „Vilt þú taka tvo metrana, Víðir?“
Víðir grípur boltann og svarar: „Stundum er það þannig að þegar það er verið að vinna að verkefnum og hlutirnir gerast hratt þá stendur maður sig kannski ekki alveg nógu vel í upplýsingamiðluninni. Ég held að það sé það sem hefur gerst í þessu tilfelli. Við höfum ekki staðið okkur vel í að miðla upplýsingum til menntamálaráðuneytisins og þar af leiðandi hefur það byggt sín ummæli á því sem við sögðum um daginn.“
Víðir snýr sér svo að Þórólfi og heldur áfram: „En sóttvarnalæknir hefur farið yfir þetta og vill kannski útskýra betur af hverju hann telur ekki þörf á því að vera með tveggja metra regluna í leik- og grunnskólum.“
Þórólfur: „Í minnisblaði mínu til heilbrigðisráðherra þá teljum við að leik- og grunnskólastarf geti farið fram með eðlilegum hætti, eins og það var áður. Við teljum að það sé erfitt að framfylgja tveggja metra reglunni. Svo erum við líka búin að fá betri og meiri upplýsingar.
Í fyrsta lagi að smit er mjög fátítt meðal barna yngri en tólf ára. [...] Það eru líka ákveðnar vísbendingar úr smitrakningunni um það að smit frá börnum til annarra, til dæmis fullorðinna, er mjög fátítt og hefur nánast ekki verið skráð. Þannig að það eru fyrst og fremst fullorðnir sem eru að smita börnin. Þannig að við teljum að börnin séu ekki þungamiðjan í sóttvarnaráðstöfunum eins og gildir um mjög marga aðra sjúkdóma. Á þeim grunni teljum við að við getum aflétt þessum takmörkunum á skólastarfi í leik- og grunnskóla og þar á meðal á þessari tveggja metra reglu.“