„Auðvitað gleðjumst við núna og fögnum sérstaklega. Daglegt líf barnanna er að komast í eðlilegt horf og við getum sett aukinn kraft í skóla og frístundastarf,“ sagði Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá sveitarfélaginu Árborg á upplýsingafundi almannavarna í dag. Gestir fundarins voru fulltrúar frá öllum skólastigum og fjallaði Þorsteinn um leik- og grunnskólastarfið.
Á mánudag, 4. maí, verða fyrstu skrefin í afléttingu samkomubanns tekin. Þá mun leik- og grunnskólastarf komast í eðlilegt horf og framhaldsskólar og háskólar sömuleiðis geta opnað byggingar sínar fyrir nemendum með þeim fjöldatakmörkunum og öðru sem áfram verður í gildi.
Þorsteinn sagði það hafa mikla þýðingu fyrir börnin að geta eftir helgi farið saman út á skólalóð, í sund, íþróttir og list- og verkgreinar. „Svo það er ofsalega mikil breyting framundan sem við gleðjumst öll yfir.“
Mikilvægt væri að geta lokið skólastarfi vetrarins með tiltölulega eðlilegum hætti. „Við þurfum svo að reyna að bretta upp ermar og finna taktinn og koma aftur fersk í skólann í haust.“
Þorsteinn sagði að undanfarnar vikur hefðu verið fullar af áskorunum fyrir starfsfólk, nemendur og foreldra. En lærdómurinn væri að sama skapi mikill. „Við finnum það sérstaklega og enn betur en áður hvað er mikilvægt að tilheyra samfélagi. Öðlast skilning á því að eiga góð samskipti því maður er manns gaman og allt það.“
Líkt og á öllum skólastigum hefur tæknin verið nýtt til kennslu meira en nokkru sinni. „Fólk hefur þurft að hugsa út fyrir boxið og þetta munum við þróa enn frekar.“ Sagði hann fjarkennsluna geta hentað ákveðnum hópum áfram, s.s. þeim sem þurfa að vera heima vegna langvinnra veikinda og þeirra sem eru með skólaforðun.
Allir hafi sýnt útsjónarsemi við afar erfiðar aðstæður. Það hafi þó gengið ótrúlega vel að umbylta öllu skólastarfi á mjög stuttum tíma. Hafi sumir haft það á orði að tengslin milli skóla og heimilis hafi styrkst í mörgum tilvikum.
„Kannski aðal lærdómurinn felist í ákveðinni ró og yfirvegun í aðstæðum sem við höfum ekki staðið frammi fyrir áður.“ Gott upplýsingastreymi hafi skipt þar sköpum og það að virkja lausnamiðaða hugsun. Allir á Íslandi sjái nú hvað leik- og grunnskólar skipta miklu máli fyrir allt samfélagið.
„Núna þarf að takast á við það sem framundan er af áræðni og krafti.“
Vernda þarf viðkvæma hópa og styðja foreldra
En margt brennur á skólafólki að sögn Þorsteins. Því miður væru aðstæður á heimilum barna misjafnar og foreldrar eiga misauðvelt með að styðja börn sín í náminu. Þannig hafi börn af erlendum uppruna ekki fengið þá íslenskukennslu sem þörf er á. Að þessum viðkvæmu hópum þurfi sérstaklega að huga.
Nú þarf að mati Þorsteins að beina áherslum námsins að þeim þáttum sem þola illa rof og þar er lestur efst á blaði. Mjög mikilvægt væri að kerfi ríkis og sveitarfélaga stilli saman sína strengi til að veita bæði nemendum og foreldrum sem á þurfi að halda aðstoð. Þar átti hann meðal annars við félagsþjónustuna. „Við þurfum að gera allt sem við getum til að hlúa að börnunum og auka vellíðan þeirra.“
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði á fundinum að ákvörðun um að aflétta takmörkunum í leik- og grunnskólum væri tekin út frá þeim rannsóknum sem hér hafa verið gerðar sem leitt hafi í ljós að enginn fullorðinn hafi smitast af barni.
Hann minnti ennfremur á að það væri skólaskylda í landinu og mjög mikilvægt væri að allir foreldrar sæju til þess að börnin þeirra mættu í skólann á mánudag. Ef barn kemst ekki í skólann verði að láta skólayfirvöld vita.
Víðir sagði það mikið ánægjuefni að skólastarf yngstu nemendanna væri að komast í eðlilegt horf. Hann minnti hins vegar á að hjá öðrum hópum giltu enn ákveðnar takmarkanir, svo sem fjarlægðarmörk og fjöldatakmörk. Allir þyrftu svo áfram að huga að hreinlæti. „Framhald þessa verkefnis er algjörlega í okkar höndum, hvernig við vinum þetta saman mun ráða framhaldinu.“