Síðasta sólarhringinn greindust 933 ný tilfelli COVID-19 í Þýskalandi. Það er stórt stökk frá því sólarhringinn á undan þegar ný smit voru 357. Frá upphafi faraldursins hafa 170.508 smit greinst í landinu.
Svokölluð R-tala veirunnar, sem segir til um hversu marga hver sýktur einstaklingur smitar að meðaltali, hefur verið yfir 1 síðustu þrjá daga í Þýskalandi. Það þýðir að hver og einn sem hefur sýkst er að smita fleiri en einn annan að meðaltali.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur varað við því að ef R-talan fari yfir 1 í einhvern tíma myndi heilbrigðiskerfið að lokum ekki ráða við álagið.
Sóttvarnastofnun Þýskalands, Robert Koch-stofnunin, segir of snemmt að álykta sem svo að –önnur bylgja faraldursins sé skollin á í landinu. Til þess þurfi að líða lengri tími. Hins vegar verði nú og næstu daga, í kjölfar fjölgunar tilfella, að rannsaka nákvæmlega þróunina.
Þýskaland hefur gert ákveðnar tilslakanir á aðgerðum sínum vegna COVID-19. Merkel sagði í gær að þrátt fyrir það væri mikilvægt að fólk héldi áfram persónulegum aðgerðum á borð við að halda fjarlægð sín á milli og viðhafa ítarlegt hreinlæti.
Nokkur hópsmit hafa orðið í Þýskalandi síðustu daga. Þau hafa til dæmis orðið í þremur kjötvinnslum þar sem á bilinu 100-350 tilfelli hafa greinst í hverri fyrir sig.
Staðfest er að yfir 4,1 milljón manna hafa smitast af nýju kórónuveirunni um allan heim. Að minnsta kosti 286 þúsund hafa látist vegna COVID-19.