Tugþúsundir svína eru aflífuð með gasi á hverjum degi á búum í Bandaríkjunum. Hópsmit hafa komið upp í hverri kjötvinnslunni á fætur annarri og ekki er hægt að flytja dýrin til slátrunar. En þau halda áfram að stækka. Og það er orðið þröngt um þau í stíunum. Bændur hafa því gripið til þess að reyna að hægja á vexti svínanna með því að hækka hitastigið í húsunum svo þau missi matarlystina eða að breyta fóðrinu svo það sé ekki eins girnilegt. Þá hafa þeir eytt fóstrum gylta, fyllt í holur veggja í eldishúsunum og dælt koltvísýringi inn í þau þar til dýrin drepast. Einn bóndi íhugar að setja svínin í flutningabíl og dæla inn í hann gasinu. Annar skaut svínin sín í höfuðið. Það tók hann allan daginn.
Svín líkt og önnur dýr sem ræktuð eru til matar, munu alltaf enda ævi sína í sláturhúsi og svo á diskum fólks. Á hverju ári er yfir 120 milljónum svína slátrað í Bandaríkjunum einum saman. Hver Bandaríkjamaður (sem yfir höfuð borðar kjöt) borðar að meðaltali 31 svín á lífsleiðinni, tíu kýr (naut) og yfir 2.000 kjúklinga. Eftirspurnin eftir kjöti er því mikil.
Víðsvegar um Bandaríkin hafa komið upp hópsmit af COVID-19 í um 170 kjötvinnslum, oft risastórum fyrirtækjum sem slátra tugþúsundum dýra dag hvern. Smitsjúkdómastofnun landsins segir að yfir 5.000 starfsmenn hafi veikst hjá þessum fyrirtækjum og að minnsta kosti 45 látist. Í ljós hefur komið að í einhverjum þeirra var ekki gripið til ráðstafana eftir að fyrstu smitin greindust og starfsfólkið, oft innflytjendur, unnu áfram hlið við hlið, notuðu sömu búningsklefa og sama matsalinn.
Þannig var það til dæmis hjá hinu risavaxna fyrirtæki Smithfield í Suður-Dakóta sem framleiðir um 5 prósent af öllu svínakjöti sem neytt er í Bandaríkjunum. Þar vinna um 3.500 manns og síðari hluta marsmánaðar kom þar upp fyrsta staðfesta smitið. Þó að starfsmennirnir vissu af því gátu þeir ekki hætt að mæta í vinnuna, verandi fyrirvinna margra. Svo fór að lokum að Í kringum eitt þúsund þeirra fengu COVID-19. Og loks um miðjan apríl ákváðu stjórnendur fyrirtækisins að hætta starfsemi tímabundið. „Það eru raunverulegar manneskjur á bak við allar vörur sem þú kaupir út í búð,“ segir Sara Telahun Birthe, dóttir eins starfsmanns Smithfield. „Þetta fólk hefur verið misnotað.“
Alls hafa 38 kjötvinnslur hætt starfsemi allt frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur. Sérfræðingar telja að undanfarið hafi kjötframleiðsla í Bandaríkjunum dregist saman um helming af þessum sökum. Þess sjást glögg merki í kjötborðum verslana um allt landið. Verslunarkeðjan Costco hefur m.a. gripið til þess ráðs að skammta viðskiptavinum kjöt, hver og einn má ekki kaupa nema þrjár kjötvörur í einu. Skyndibitastaðir Wendy‘s geta ekki selt hamborgara.
Þegar svín eru orðin 150-180 kíló eru þau orðin of þung fyrir búnað sláturhúsanna. Þá verður að beita öðrum aðferðum til að drepa þau. „Á hverjum degi sem þú elur upp svín þá ertu að gera það svo það verði matur,“ segir svínabóndinn Mike Boerboom, í samtali við BBC. „Þú ert að rækta það til að setja það á borðið hjá einhverjum. Tilhugsunin um að þurfa að taka það sem átti að verða matur og henda því... það veldur manni ógleði.“
Bændur hafa orðið fyrir miklu fjárhagstjóni en það er líka mörgum þeirra erfitt að fella dýr sín með þessum hætti. Flest búin eru í miðríkjum Bandaríkjanna á svæðum þar sem atvinnulífið er fábreytt. Líklegt er að einhverjir bændur muni ekki sjá sér annað fært en að hætta búskap.
Í Iowa, þar sem svínabú eru flest í landinu, þarf að öllum líkindum að drepa um 600 þúsund svín utan sláturhúsa á næstu vikum. Þegar hafa um 90 þúsund verið felld.
Hætta á mengun
Hópur þingmanna í Iowa hefur biðlað til stjórnvalda að veita bændum aðstoð, bæði við að fella dýrin og fjárhagslega. Þeir vilja einnig að svínabændur fái áfallahjálp. Ef bændur fá ekki aðstoð við að „grisja hjarðirnar“ þá gæti það, að mati þingmannanna, haft áhrif á heilsu dýranna, skapað umhverfisvá og að fjölmargir bændur muni bregða búi.
Svín eru ekki einu dýrin sem þjást í þessu ástandi þó að þau, stærðar sinnar vegna, séu fyrstu fórnarlömbin. Hænsna- og eggjabændur eru einnig farnir að drepa dýrin í eldishúsunum. Milljónir kjúklinga hafa verið kæfðar með koltvísýringi.
Ástandið hefur opnað augu manna fyrir því hvað slátrun dýra og vinnsla kjöts hefur á síðustu árum færst á hendur fárra og risastórra fyrirtækja. Þegar þau svo verða að hætta rekstri tímabundið eiga bændur engra annarra kosta völ.
Í grein New York Times kemur fram að fjöldaframleiðsla á svínum sé þannig að dýrin séu alin í eldishúsum í hálft ár eða þar til þau ná um 130 kílóum að þyngd. Þá eru þau send til slátrunar. Ef þau eru mikið þyngri er ekki hægt að hengja skrokka þeirra upp á framleiðslulínur sláturhúsanna.
Risavaxin bú og risavaxnar kjötvinnslur
Einnig hefur nú bersýnilega komið í ljós hversu stór svínabú eru orðin. Rúmlega 98 prósent allra svína eru alin upp á stórbúum, þ.e. búum þar sem alin eru hverju sinni hundrað svín eða fleiri. Dýraverndunarsamtök hafa bent á að eftir því sem búin stækka eykst hætta á því að svínunum líði verr. Afhjúpað hefur verið að á búum sé gyltunum haldið í þröngum stíum, fjarri grísum sínum.
Þau gagnrýna nú, þegar milljónir dýra verða ekki færð til slátrunar í viðurkenndum sláturhúsum, að kjötiðnaðurinn hafi ekki átt til neinar neyðaráætlanir til að bregðast við ástandi sem þessu. Fjöldaframleiðsla hafi þurrkað út mannúðina við uppeldi og slátrun dýranna.
Bændur eru nú margir orðnir uppiskroppa með pláss. Ræktunin gengur út á það að slátra reglulega svo færa megi aðra kynslóð grísa inn í húsin. Bóndinn Boerboom hefur reynt að komast hjá því að fella svínin í eldishúsunum. Hann hefur meðal annars selt þau á Facebook. Hann segir að í síðustu viku hafi maður einn keypt 48 svín af honum og flutt þau til slátrara í Wisconsin. Kjötið hafi svo verið gefið til samtaka sem útdeila mat til þurfandi. Veiðimenn, sem kunna til verka við slátrun, hafa einnig keypt nokkur dýr af honum.
En stærstu dýrin þarf að drepa. Og einnig þau minnstu. Nokkrir bændur í Iowa eiga saman gyltur til undaneldis. Þeir tóku þá erfiðu ákvörðun í sameiningu að lóga grísunum. Síðan þá hafa um 125 grísir verið drepnir á viku, sumir þeirra strax eftir got. Einn bændanna, Dean Meyer, segir í samtali við New York Times að hann viti ekki hvernig grísirnir voru drepnir. Hann vilji ekki vita það. „Þetta gengur algjörlega gegn öllum okkar gildum,“ segir Meyer. „Hin náttúrulega leið er að halda öllu á lífi og hugsa eins vel um [dýrin] og við getum.“
Eitt þeirra vandamála sem bændur glíma við er hvernig eigi að losa sig við hræ svínanna eftir að þau eru drepin. Þeir segja minna mál að losa sig við smáa grísi en risastór svín eru annað mál. Óttast er að ef ekki verði rétt að málum staðið geti mengun borist í ár, lækni og vötn.
Í Minnesota hafa heilbrigðisyfirvöld leigt stór landsvæði þar sem grafa á hræin. Á hverjum degi koma þangað stórir flutningabílar, fullir af svínshræjum. Hræin eru svo hökkuð niður í vél sem almennt er notuð er við að kurla niður tré.
Í miðjum faraldri kórónuveiru hefur neysla á vegan-fæði margfaldast víða – í Bandaríkjunum um 280 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Skýringarnar eru margvíslegar en ein er talin felast í því að fólk hefur farið að íhuga fæðuval sitt í kjölfar heimsfaraldurs sem á upptök sín í dýrum. Þegar fólk fór að hamstra mat vegna faraldursins, áður en kjötskortsins varð vart, jókst sala á kjöti hlutfallslega minna en annarra matvara.