Eftir að hafa unnið heima í níu vikur og líkað það mjög vel sýndi Margrét Pála Valdimarsdóttir, ráðgjafi hjá Íslandsbanka, því mikinn áhuga að fá að halda því áfram, að minnsta kosti annað slagið. Það gerði reyndar meirihluti allra starfsmanna bankans sem hefur nú ákveðið að allir vinni að jafnaði heima einn dag í viku.
Margrét Pála starfar í ráðgjafaveri Íslandsbanka í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Norðurturninum í Kópavogi. Þegar samkomubann var sett á um miðjan mars flutti hún sig heim, eins og margir aðrir. Hún fékk tölvuskjá með sér og kom sér svo fyrir við eldhúsborðið og hóf að svara fyrirspurnum viðskiptavina og erindum sem berast með tölvupósti. „Mér fannst mjög þægilegt að vinna heima,“ segir hún í samtali við Kjarnann. „Ég held að mér hafi tekist að afkasta meiru.“
Heima við tókst Margréti Pálu að einbeita sér betur að verkefnum dagsins, þar var meiri ró en á vinnustaðnum. Hún segist þó hafa saknað ákveðinna hluta af vinnustaðnum – fyrst og fremst mötuneytisins. „Og samstarfsfélaganna auðvitað líka.“
Um leið og fjöldatakmörkunum var aflétt og starfsmenn Íslandsbanka gátu farið að mæta aftur á vinnustaðinn sýndi Margrét Pála því mikinn áhuga að fá að vinna heima hluta vikunnar. „Ég vonaði að það yrði mögulegt og að upp á þann sveigjanleika að vinna stundum að heiman yrði boðið,“ segir hún. Sú ósk hennar hefur orðið að veruleika því Íslandsbanki hefur ákveðið að starfsfólk vinni að jafnaði einn dag í viku heima. Um tilraunaverkefni er að ræða og gangi það vel verður fyrirkomulagið innleitt hjá öllum sviðum bankans.
Nýlega var gerð könnun meðal starfsfólks Íslandsbanka eftir að meirihluti þess hafði unnið heima vegna COVID-19. Niðurstöðurnar sýna fram á mikinn áhuga starfsfólks að halda áfram að vinna heima hluta úr viku, félagsleg tengsl hafa haldist ágæt og afkastageta aukist í mörgum tilvikum. Fyrirkomulagið mun einnig draga úr kolefnisspori bankans en ferðir starfsfólks til og frá vinnu vega hvað þyngst í kolefnismælingum undanfarinna ára. Þá eru þessar aðgerðir einnig taldar hafa jákvæð rekstraráhrif, segir í tilkynningu frá bankanum.
Fyrir tæpum tveimur vikum mætti Margrét Pála aftur til starfa í Norðurturni. Helst vill hún geta unnið heima einn til tvo daga í viku. „Það væri mjög þægilegt.“
En hvaða fleiri kosti en ró og frið sér Margrét við fjarvinnu?
„Mér fannst mjög þægilegt að geta tekið æfingu í hádeginu heima. Þegar ég er á vinnustaðnum þarf ég að fara út úr húsi á æfingu og það allt tekur miklu lengri tíma. Það er mun fljótlegra að skreppa inn í stofu og taka æfingu.“ Vissulega sparist svo einnig tími við að taka sig til og keyra í vinnuna. Allt verði þetta til þess að frítími utan vinnu lengist.
Margrét býr í Garðabæ og það tekur hana ekki langan tíma að keyra í vinnuna. Hún vill þó gjarnan sleppa við það annað slagið og telur að fjarvinnufyrirkomulagið gæti létt almennt á umferðinni, verði það útbreitt.
Í samkomubanni urðu mörg fyrirtæki að takmarka þann fjölda starfsmanna sem vann á vinnustaðnum og þúsundir settust við tölvurnar heima við. En þessi „þvingaða fjarvinna“ sem þurfti að taka upp hefur hins vegar sýnt að slíkt fyrirkomulag er gerlegt án þess að framleiðni minnki. „Ég held að það hafi komið mörgum yfirmönnum og stjórnendum á óvart hvað þetta gekk ótrúlega vel,“ segir Margrét. Ráðgjafar hafi setið við símann heima eða svarað tölvupóstum og allt hafi tekist vel, þrátt fyrir að mikið álag hafi verið vegna ástandsins. „Allir sýndu mikla samstöðu. Og allt þetta flýtti fyrir þessari þróun, að gera fjarvinnu mögulega hjá mörgum fyrirtækjum á Íslandi.“