Aðlögun ferðaþjónustunnar að nýjum veruleika eftir COVID-19 gæti reynst erfið, ekki síst vegna verulegrar fjárfestingar undanfarin ár sem enn sér varla fyrir endann á og byggðist á væntingum sem eru fjarri framtíðarhorfum greinarinnar næstu misseri. Áfallið bætist við rekstrarvanda ferðaþjónustunnar fyrir útbreiðslu heimsfaraldursins.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í greinargerð efnahags- og fjármálaráðuneytisins um losun ferðatakmarkana hingað til lands sem stefnt er að um miðjan mánuðinn. Þá mun komufarþegum bjóðast að fara í sýnatöku í stað tveggja vikna sóttkvíar.
Árið 2019 komu tvær milljónir ferðamanna hingað til lands eftir nokkra fækkun frá því að fjöldi þeirra náði hámarki árið 2018. Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar var nærri 470 milljörðum króna í fyrra eða 35 prósent heildarútflutnings. Þjóðhagslegur ávinningur af hverjum ferðamanni var nærri 100.000 krónur að meðaltali.
Í ársbyrjun og áður en faraldurinn reið yfir gerðu flestir greiningaraðilar ráð fyrir að fjöldi ferðamanna myndi nærri standa í stað milli ára. Bókunarstaða hótela fyrir sumarið var betri en á sama tíma í fyrra en á móti vó að bókunarstaða fyrir haustið var síðri.
Erfiðar rekstraraðstæður fyrir COVID
Í greinargerð ráðuneytisins segir að þrátt fyrir mikinn fjölda ferðamanna hafi rekstraraðstæður í greininni verið erfiðar og nokkur hagræðing átt sér stað. Sem dæmi fækkaði þeim sem störfuðu við ferðaþjónustu á tímabilinu mars til október á síðasta ári um 2.000 frá sama tíma ári áður. Fækkun starfa var mest hjá flugfélögum eða um og yfir 20 prósent en störfum fækkaði einnig í rekstri gististaða, í veitingaþjónustu, hjá ferðaskrifstofum og í öðrum atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu.
Þá hafði nýting hótelherbergja versnað fyrir útbreiðslu faraldursins en þrátt fyrir það var útlit fyrir allt að fjórðungs fjölgun hótelherbergja árin 2020-2022. Hætt var því við að nýting hótela hefði enn versnað talsvert næstu ár þótt ekki hefði komið til faraldursins, segir í greinargerðinni.
Undanfarin ár má áætla að eitt starf í ferðaþjónustu hafi orðið til fyrir hverja 70-80 ferðamenn sem heimsækja landið. „Ef viðhalda á fjölda starfa í ferðaþjónustu þrátt fyrir að ferðamönnum fjölgi hægt eftir að ferðatakmörkunum er aflétt er ljóst að stærðarhagkvæmni í greininni mun minnka, störfin verða ekki eins verðmæt og þau sem voru fyrir og laun þurfa að vera lægri að öðru óbreyttu,“ segir í greinargerðinni.
Spá 60-70 prósent samdrætti
Ferðasamtök Sameinuðu þjóðanna spá 60-80 prósent samdrætti í ferðaþjónustu á heimsvísu á þessu ári samanborið við árið 2019. Spáin versnar því lengur sem ferðatakmarkanir vara. Mörg þeirra ríkja sem verst hafa orðið úti í heimsfaraldri COVID-19 gegna lykilhlutverki á ferðaþjónustumarkaði, ýmist sem áfangastaðir eða uppspretta ferðamanna. Þeirra á meðal eru Bandaríkin, Bretland og Kína sem öll eru meðal mikilvægustu markaða íslenskrar ferðaþjónustu, bæði vegna fjölda ferðamanna og dreifingar þeirra innan ársins.
Efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins í þessum ríkjum munu ótvírætt hafa áhrif á eftirspurn eftir alþjóðlegum ferðalögum. Samkvæmt hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) frá því í apríl er útlit fyrir að samdráttur efnahagsumsvifa í ár verði meiri en í kjölfar fjármálahrunsins á öllum helstu markaðssvæðum ferðaþjónustunnar.
„Ef ferðaþjónustan tekur ekki við sér, hvorki á þessu ári né því næsta, er ljóst að gríðarleg tilfærsla þarf að verða á framleiðsluþáttum til að hagvöxtur geti tekið við sér að nýju,“ segir í greinargerð ráðuneytisins. „Hætt er við langvarandi atvinnuleysi stórs hluta þeirra ríflega 23.000 einstaklinga sem störfuðu í ferðaþjónustu fyrir faraldurinn komist hótel og önnur framleiðslutæki ferðaþjónustunnar ekki í arðbæra nýtingu.“
Ef landið yrði áfram lokað ferðamönnum yrði ferðaþjónustan „aðeins svipur hjá sjón“ segir í greinargerðinni. Uppsögnum í greininni myndi líklega fjölga enn frekar og líkur á að fólk verði ráðið að nýju minnkað verulega. Um 12 þúsund starfsmenn í ferðaþjónustu voru í skertu starfshlutfalli í lok apríl sem gæti verið nærri helmingur þeirra sem störfuðu í greininni fyrir faraldurinn. Hefur þeim fækkað um 4.500 fram undir lok maí, m.a. vegna fjöldauppsagna stórra ferðaþjónustuaðila.
Um 8 þúsund útlendingar störfuðu í ferðaþjónustu
Mikill fjöldi erlendra ríkisborgara hefur flutt til landsins samhliða vexti ferðaþjónustunnar. Á landinu búa nú ríflega 50 þúsund erlendir ríkisborgarar. Um 8 þúsund þeirra störfuðu í ferðaþjónustutengdri starfsemi á síðasta ári.
Í greinargerðinni kemur fram að ætla megi að stórum hluta þeirra hafi þegar verið sagt upp störfum og enn fleiri, m.a. úr öðrum atvinnugreinum, muni vafalaust bætast við á næstunni. Staða erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði er að meðaltali viðkvæmari en staða íslenskra ríkisborgara. Án verulegs bata í ferðaþjónustu má reikna með miklu atvinnuleysi þessa hóps á næstu mánuðum og jafnvel árum.